Fjárfesting í brúnni milli Íslands og Grikklands

10.10.2024
HEAD2HEAD2024

Haustinu á Íslandi fylgja óboðnir gestir; þurrar varir og kaldar hendur. Skammdegið hellist yfir landið og næturnar lengjast eftir því sem dagarnir líða. Á meðan skín sólin í Grikklandi og lengir sumarið þar með geislum sínum. Það er ekki fyrr en að veturinn tekur við, að kuldinn heilsar loks upp á Grikkland. Þá er dagsbirtan nánast horfin á Íslandi.

Við fyrstu sýn er auðveldara að telja það sem er ólíkt frekar en líkt á milli þessara tveggja landa; Grikklands og Íslands. Veðurfar, menning, hugarfar, þetta er allt saman ólíkt. Hins vegar má þó finna sterk og ólíkleg líkindi, sér í lagi í listheimi beggja landanna, og hugarfari listamannanna.

HEAD2HEAD listahátíð

HEAD2HEAD listahátíð

Félagar í listamannarekna galleríinu Kling og Bang og listamannarekna rýminu A - DASH í Aþenu, ásamt fleirum, sáu þessi líkindi og vildu varpa ljósi á þau sem og segulkraftinn á milli ólíkindanna. Úr varð listahátíðin Head2Head sem opnar í nokkrum völdum rýmum í Reykjavík 11. október næstkomandi. Þetta er þó ekki fyrsta opnun hátíðarinnar því fyrir tæpum þremur árum, eða frá 5.-14. nóvember árið 2021 var fyrri hluti hátíðarinnar haldinn í Aþenu og er þetta því seinni hluti hennar. Á hátíðinni fyrir þremur árum fóru rúmlega 20 íslenskir listamenn til Aþenu og sýndu í listamannareknum rýmum um borgina ásamt grískum listamönnum. Í þetta skipti koma Grikkirnir til okkar og sýna um alla borg.

Kling&Bang

Félagar í Kling&Bang

Úr Kling & Bang

Sýning í Kling & Bang

Viðmælandinn Rúrí Sigríðardóttir Kommata, einn skipuleggjandi hátíðarinnar Head2Head, er sjálf hálf grísk og hálf íslensk. Á meðan hún var búsett í Aþenu velti hún fyrir sér líkindum landanna tveggja. „Bæði löndin komu illa út úr efnahagshruninu árið 2008 sem jók spennandi „DIY" eða „do it yourself" hugarfar á meðal listamanna. Nú í dag einkennast listasenur beggja landa af þessu hugarfari og þar af leiðandi af mörgum listamannareknum rýmum og miklum vilja listamanna til þess að aðstoða hvern annan,“ segir Rúrí. Þarna fékk Rúrí hugmynd að listrænu grísk-íslensku frumkvæði. Henni fannst þá, og finnst enn, vera segulkraftur á milli landanna. Óútskýranlegur kraftur sem tengir þessi ólíku lönd. Hátíðin er því eins konar fjárfesting í brúnni á milli þeirra, leið til þess að mætast í miðjunni. 

Árið 2017 þróaðist hugmyndin frekar milli Kling & Bang og A - DASH. Þau ákváðu að slá til og búa til verkefni á milli þessara tveggja landa. Vegna stigmagnandi áhuga Íslendinga á Grikklandi bættust sífellt fleiri við hóp skipuleggjanda og varð verkefnið loks að veruleika. Má líka nefna að einn skipuleggjendanna og félaga í A - DASH, Eva Ísleifs, bjó í Aþenu á þeim tíma og starfaði sem listamaður þar. Þar fékk hún innsýn í grísku listasenuna frá fyrstu hendi.

„Heimsóknir einstaklinga frá Kling og Bang til Grikklands, meðal annars Erlings T. V. Klingenberg og Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur, voru þarna að verða tíðari. Á sama tíma var senan í Reykjavík einnig að verða fyrir miklum breytingum. Verið var að innleiða meira af listamannareknum rýmum, fyrirbæri sem hefur orðið heldur þekkt á Íslandi og í Grikklandi en fyrirfinnst þó ekki alls staðar,“ segir Rúrí.

Þarna voru komnar fjölbreyttar ástæður til þess að skapa einhverja menningartengingu á milli landa. Hugmyndafræinu hafði verið sáð í sköpunarjarðveginn við góðar undirtektir, og hafist var handa við að rækta afraksturinn.

H2H list
H2H list2

Höfuðborgirnar tvær, Reykjavík og Aþena, eru undarleg framlenging á hvor annarri. Þessi margþátta og merkilega tenging er að mörgu leyti vegna listamannareknu senunnar. Senunnar sem stendur utan stofnana og kapítalsins. 

Löndin sjálf eru ólík í eðli sínu og hegðun landsmanna er ólík. Því er spennandi að sjá hvað gerist þegar þau mætast. Í eðli sínu eru Íslendingar anarkistar, þurfa engar skipanir til þess að framkvæma. Grikkirnir eru í sífelldri þróun og fylgja ekki heldur fyrirfram ákveðnum reglum. 

Ég spurði nokkra Íslendinga sem sem varið hafa tíma í Aþenu hvað væri líkt með þessum tveimur þjóðum. Þeir sögðu að Grikkir deili með okkur hinu víðfræga hugarfari Þetta reddast, nema að þeirra útgáfa sé Við reddum þessu. Þetta reddast er orðatiltæki og hugarfar sem flestir Íslendingar ættu að þekkja og er það nánast orðið að eins konar þjóðarstolti. Staðreyndin er sú að suður við Miðjarðarhaf er önnur þjóð sem á þetta sameiginlegt með okkur. Það er vert að kanna og bera kennsl á. 

Hátíðin leggur jafn mikið upp úr því að varpa ljósi á þau listamannareknu rými sem verkin eru sýnd í, sem og listamennina sem þar sýna. Hátíðin á að standa utan stofnana, hún á ekki að snúast um sölumennsku eða kapítalið.

H2H 3
H2H 4

Kling og Bang gallerí er listamannarekið rými og vildu aðstandendur því vinna með sínum líkum. Hátíðin á að ná beint til fólks, ekki stofnana, og vinna með því og í þágu þess. Þegar framkvæmt er óháð stofnunum þá getur myndast eitthvað spennandi og ófyrirséð. Listamannarekin rými búa til pláss fyrir tilraunastarfsemi og vettvang til þess að skoða hráar pælingar. Myndlist snýst ekki um að selja verk, listin liggur annars staðar og framtak eins og Head2Head hátíðin varpar ljósi á það. Hátíðin er vettvangur fyrir fólk sem deilir sama hugarfari til að vinna saman og skapa. 

Í upprunalegum hópi skipuleggjenda hátíðarinnar eru Rúrí Sigríðardóttir Kommata, Erling T. V. Klingenberg, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Eva Ísleifs, Elísabet Brynhildardóttir og Selma Hreggviðsdóttir. Nú hafa Sólbjört Vera Ómarsdóttir og Katerina Spathi bæst í hópinn. Þótti þeim mikilvægt að búa til hátíð þar sem listamennirnir héldu utan um bæði í sýningarstjórnun og skipulagningu. Það helst einnig í hendur við DIY hugarfarið sem skilgreinir og litar listamenn beggja þjóða. „Fjórum árum fyrir fyrri hluta Head2Head hátíðarinnar var önnur listahátíð haldin á Grikklandi; alþjóðlega listahátíðin Documenta. Mörgum innfæddum fannst eins og hátíðin hefði bara einkennst af útlendingum að koma til Grikklands og halda partý án tillits til heimamanna. Við vildum ekki skapa þannig stemningu þegar við skipulögðum Head2Head. Að við kæmum sem útlendingar og yfirtækjum borgina. Þar af leiðandi fengu aðstandendur rýma sem voru að sýna verk eftir Íslendinga mikið svigrúm til þess að geta tekið sínar eigin ákvarðanir varðandi sýningarstjórn og val á listamönnum. Þau fengu að gera hlutina eftir sínu eigin höfði og hefur það alltaf verið mikilvægur þáttur í hátíðinni og því sem hún stendur fyrir. Svo urðu Kling & Bang og A - DASH málamiðlarar þar á milli,“ segir Rúrí.

h2h 5

Það er áhugavert að skoða hvernig þessar tvær þjóðir skapa og hvað þær hafa að bjóða hvor annarri. Konseptið einkennir listsköpun Íslendinga og sagan einkennir Grikki. Með sína ríkulegu sögu þá horfa Grikkirnir mikið til Forn-Grikklands, heimspekinnar og hugmyndanna sem fyrirfundust þar. Lönd sem eru með svo ríkulega og þekkta sögu vantar oft samstarfsaðila til að hjálpa sér að taka sér fótfestu í samtímanum, samstarfsaðila með ferska sýn. Dýnamíkin á milli Íslands og Grikklands sýnir sig að einhverju leyti þannig. Íslenskir listamenn eru sérhæfðir í fúskinu sem spilar vel með klassíkinni frá Grikklandi. Grikkir eru með innbyggðan suðrænan kærleik sem getur lýst upp rökkrið sem hægt og rólega  hellist yfir okkur hér við norðurheimskautsbaug. 

Hátíðin er fyrsta menningartenging Íslands og Grikklands. Ein sterkasta tenging þjóðanna hingað til er í gegnum fyrirtæki sem veiða og selja fisk enda fyrirfinnst mikil fiskmenning í báðum löndum sem umkringd eru af hafi. Af öðru sameiginlegu má nefna túrismann sem er ríkuleg og mikilvæg auðlind hjá báðum löndum. 

Líkt og nefnt var áður þá komu bæði löndin illa úr hruninu og náðu listamenn beggja landa að vinna með og í kringum það að vera „fátækir“. Frá harðindum skapaðist þetta einkennandi hugarfar. Ísland er dýrara og ríkara land en Grikkland og því hindrar fjárhagur að allir grísku listamennirnir sem tóku þátt í síðustu hátíð komist nú til Reykjavíkur. Þetta var ekki raunin þá, þegar enginn þeirra íslensku listamanna sagði nei við tækifærinu til þess að sýna í Aþenu. Þetta er algengt og leiðinlegt vandamál við Reykjavík sem alþjóðlega listaborg. Margir listamenn munu aldrei fá tækifæri til þess að koma til borgarinnar og landsins vegna efnahagsástandsins og tilhneigingar til verðbólgu. Þetta er að mínu mati mikill missir fyrir landið okkar. Það þarf að draga okkur út til heimsins, ekki síst þar sem við erum einangruð á lítilli eyju í miðju Atlantshafi. Það má segja að fátt sé boði því senan er lítil og einungis einn listaháskóli. 

Þetta undirstrikar mikilvægi menningarviðburða líkt og Head2Head. Þeir minna okkur á að þrátt fyrir að lönd og hefðir geti virst ólík eigum við, við nánari skoðun, margt sameiginlegt og getum átt góða samleið.

h2h6

Prógram hátíðarinnar

Föstudag 11. október

︎17:00 

Associate Gallery

︎Köllunarklettsvegur 4, Reykjavík

Yorgos Yatromanolakis

Brák Jónsdóttir

︎19:00 

Open í Norræna Húsinu 

︎Sæmundargata 11, Reykjavík

Chrysanthi Koumianaki

Fanis Kafantaris

Helgi Valdimarsson listamaður frá Garði

Eiríkur Páll Sveinsson

Hlökk Þrastardóttir

Laugardag 12. október 

16:00

︎Bókumbók

︎Hólmaslóð 6 - 101 Reykjavík

Katerina Botsari

Yiannis Skaltsas

Kostis Velonis

Amanda Riffo

︎19:00

Nýlistasafnið

︎Marshallhúsið - Grandagarður 20 , 101 Reykjavík

Joanna Pawłowska in collaboration ásamt Sasa Lubinska

Kosmas Nikolaou

Despina Charitonidi performance 

Zoe Hatziyannaki

Sýningarstýrt ásamt Eleni Tsopotou / Stoa42

︎19:00

︎Kling&Bang

︎Marshallhúsið - Grandagarður 20 , Reykjavík

Konstantinos Lianos

VASKOS (Vassilis Noulas & Kostas Tzimoulis) gjörningur sýningarstýrður ásamt Christina Petkopoulou

Ívar Ölmu

Sunnudag 13. október

14:00

︎Phenomenon / Fyrirbæri

︎Ægisgata 7, 101 RVK, Reykjavík

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir

Sofia Kouloukouri performance

Theo Prodromidis

︎16:00

Kannski Gallery 

︎Lindargata 66, Reykjavík, Iceland

Paky Vlassopoulou

Hugo LIanes

︎17:30

︎Gallery Underpass / Gallerí Undirgöng

︎Hverfisgata 76, Reykjavík, Iceland

Maaike Stutterheim

Unnar Örn Auðarsson

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5