Fræ í óþekktum vötnum: Saga af plöntum og þrautseigju

10.09.2024

Viðarstólpar, kalksteinn, múrsteinar og hvítt berg Istríu-skaga, hráefnin fjögur sem notuð voru til að byggja upp Feneyjar á Ítalíu, borg sem er skráð á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Það er hér sem ég bý á meðan á tveggja mánaða starfsnámi mínu við 60. Feneyjatvíæringinn stendur yfir. Samtöl fólks bergmála á þröngum götum þar sem líta má sögulegar freskur endurreisnartímans innan um byggingar frá miðöldum. Fegurðin, sem er á stundum yfirþyrmandi, veitir manni innblástur. Samt sem áður liggur eitthvað í loftinu innan um alla töfrana og fortíðarþrána til miðalda. Eitthvað undarlegt. Þessari hugsun lýstur niður þar sem ég sit undir háu tré á torgi heilags Jakobs. Börkur þess minnir á vatnslitamynd eftir Van Gogh. Ef borgin er byggð á viðarstólpum í Miðjarðarhafi, hvernig fara trén sem dreifa sér um eyjuna að því að lifa af? Hvernig vex fræ án jarðvegs, í gegnum kalkstein og múrsteina í miðju lóni? Ég velti því fyrir mér hvort það sé tilviljun ein að tvíæringurinn sé haldinn í grænasta hluta borgarinnar, hverfi sem heitir meira að segja Giardini, eða Garðurinn. Samhliða áframhaldandi þjóðarmorði í Palestínu er ég minnt á seiglu þeirra listamanna sem skapa í aðstæðum gjörólíkum þeirra í Garðinum sem hýsir tvíæringinn. Árið 1805 fyrirskipað Napóleon Bónaparte að almenningsgarður skyldi byggður í Feneyjum. Hátíðin óx svo upp úr laufskrúðinu síðar, árið 1895. Fjöldi spurninga fylla hug minn, líkt og oft vill gerast þegar maður er fjarri heimahögunum. Hugsandi um forn ólífutré Palestínu sem vaxa þrátt fyrir eyðileggingu stríðsins dregst ég að því að kanna þá kima myndlistarinnar sem spretta upp úr hörmungum. Í apríl var ég viðstödd sameiginlegt opnunarpartí Íslands og Írlands þar sem Palestínu var sýnd var samstaða. Ég komst ekki hjá því að hugleiða hvernig það sé að vera palestínskur listamaður sem neyðist til að standa andspænis hörmulegum aðstæðum heima fyrir, á hátíð sem þessari, hátíð sem samþykkir ekki þátttöku þína. Af hvaða fræi sprettur listin þegar nauðsynlegur stuðningur er ekki til staðar? Hvert fer listin þegar hún nýtur ekki stuðnings samferðamanna sinna? Með þessar spurningar í huga held ég af stað til þess að kanna list tvíæringsins, bæði innan og utan glæstra garða Giardiani.

Vivien Sansour. Palestine Heirloom Seed Library, (2024)

Ég geng yfir viðarbrúna sögufrægu sem kennd er við Akademíuna inn í Dorsoduro, hverfi þar sem afstaða til menntunar og menningararfleifð er önnur en í þeim hverfum borgarinnar þar sem ferðamannaiðnaðurinn ræður ríkjum. Hverfið er ungt, líflegt og viðkunnanlegt. Þar eru bókabúðir og söfn og með reglulegu millibili má finna sýningarstaði á vegum tvíæringsins. Ég fylgi leiðbeiningum Google Maps um þröng stræti fjarri mesta skarkala borgarinnar að skála sem ber heitið Vesturbakkinn Syðri. Leiðin um þessi fáförnu stræti er dapurleg en líka róandi, hvíld frá áreiti borgarinnar og tvíæringsins. Ég beygi fyrir horn til vinstri til að ganga inn í skálann og tilfinningin sem grípur mig er léttir. Ólíkt flestum skálum, þar sem stemningin keyrir oft um þverbak, var sú leið farin á Vesturbakkanum Syðri að beina sjónum að brothættu sambandi fólks og plantna með lágstemmdum hætti. Í stað þess að nota gervigreind í óhófi eru ljósmyndir, vídeó og náttúrulegir hlutir til sýnis. Í suðurhluta Vesturbakkans í Palestínu sækja listamenn sem búa við grimmt hernám innblástur til daglegs lífs átaka og til sameiginlegs minnis forfeðranna. Menningarleg sjálfsmynd þeirra er bundin órjúfanlögum böndum við viðvarandi andspyrnu og baráttu, rétt eins og trén í Feneyjum sem spretta upp úr óhentugum jarðvegi. Palestínumenn hafa í áratugi búið undir oki þeirrar hugmyndar nýlendustefnunar að þeir séu ekki til; samt má finna í list þeirra mikla áherslu á að viðhalda því sem eftir er af landsvæði Palestínumanna. Ég skoða skálann sem stendur utan við aðal sýningarstaði tvíæringsins, sem er ein af of fáum birtingarmyndum Palestínumanna á tvíæringnum. Ástæðan er sú að ítalska ríkið viðurkennir ekki tilvist Palestínu og þar með er þjóðinni ekki boðin þátttaka á tvíæringnum.

Frieda Toranzo Jaegerand. Rage Is A Machine In Times of Senselessness, (2024)

Í öðrum enda skálans hanga litlir pokar með fræjum. Fræin seldust upp á örfáum mínútum eftir að dyr skálans voru opnaðar almenningi. Í list sinni hefur Vivian Sansour lagt áherslu á að sá fræjum sem samofnar eru aldar gamalli sögu Palestínu.. Þau hafa verið vandlega valin í árþúsund og geyma kjarnann í sögu og þekkingu Palestínu. Þau gefa fyrirheit um líffræðilega fjölbreytni til framtíðar. Sú einfalda athöfn Sansour, að planta fræjum, felur í sér andóf og í senn hugleiðingu um framtíð vonar og lífs. Þessi erfðafræ segja sögur sem rekja rætur sínar til forfeðranna. á sama tíma geyma þau mikilvægar upplýsingar um hvaða plöntur halda áfram að standa af sér ofbeldi hernámsins. Við hliðina á erfðafræjaverkefninu má finna verk Sari Khoury Þrúgur Reiðinnar, (e. Grapes of Wrath) frá árinu 2021. Í verkinu er sjónum beint að palestínsku víni sem táknar á svipaðan hátt þrautseigjuna gegn áratuga mótlæti. Þetta verðlaunavín er ræktað á vínekrum sem eru á svæðum þar sem ræktuð eru sjaldgæf afbrigði palestínskra vínberja. Þrátt fyrir að að vera eyðilagður af ísraelska hernum óx vínviðurinn upp að nýju, innan um ónýtan jarðveginn og grjót. Hann minni þannig á viðkvæmu trén sem vaxa í hrjóstugri náttúru feneyskra stræta. Notkun Khoury á fornum vínberjum ögrar landnema menningunni sem módernismi þvingar upp á frumbyggja á Vesturbakkanum. Í verkinu Anchor in the Landscape (2022) sýna Adam Broomberg og Rafael Gonzalez ljósmyndir af mörg þúsund ára gömlum ólífutrjám á hernumdu svæði. Í landi þar sem átök og eyðilegging stigmagnast endurspeglar hver ljósmynd viðkvæma stöðu palestínska fólksins en um leið seiglu þess í gegnum náið samband þess við landslag sitt. Ég held áfram að kanna ráðgátuna um feneysku trén sem vaxa í jarðvegssnauðri borginni og velti fyrir mér hvernig þjóð, sem víða er talin „ekki vera til“ getur skapað sér umhverfi sem leiðir til listsköpunar. Ég kemst að þeirri niðurstöðu að rætur sköpunar þeirra liggi í einföldum lífsstíl og þeirri gjörð að rækta plöntur sem andóf.

Hildigunnur Birgisdóttir. Healthy Gums. Healthy Life, (2024) 

 

Víða í Feneyjum má finna fræ samstöðu með palestínsku þjóðinni í formi veggjakrots, veggmynda og viðburða sem minna á tvístrun? brottfluttra Palestínumanna. Ég held áfram að ganga um Academia og tek eftir að orðin „Palestina Libera“ hafa verið krotuð á veggi með reglulegu millibli. Rauðri málningu hefur verið slett yfir hliðið að háskóla borgarinnar. Það gerðu stúdentar til að lýsa óánægju sinni með tengsl stofnunarinnar við Ísrael. Mexíkóski listamaðurinn Frieda Toranzo Jaegerand vísar til hreyfingarinnar sem berst fyrir frelsi Palestínu í málverki sínu Reiðin er vél á tímum heimskunnar (e. Rage Is a Machine in Times of Senselessness) frá árinu 2024 sem finna má í Arsenale. Í verkinu má sjá sjö vatnsmelónur en ávöxturinn hefur oft verið notaður sem tákn fyrir þjóðfána Palestínu. Nokkrar af vatnsmelónunum hafa verið skornar svo sést í fræi þeirra, tákn um ofbeldisfull brot á mannréttindum Palestínumanna. Í börk einnar vatnsmelónunnar hafa orðin „Viva Palestina“ verið skrifuð sem birtir hráa, líkamlega löngun til þess eins að lifa af. Í Palazzo Mora er samsýning sem ber heitið Útlendingar í eigin heimalandi: Landtaka, aðskilnaðarstefna, þjóðarmorð ( e.  Foreigners in their Homeland: Occupation, Apartheid, Genocide). Hún stendur yfir jafn lengi og tvíæringurinn. Upphaflega var sýningunni hafnað af stjórn tvíæringsins en hún var loks samþykkt sem tengdur viðburður eftir að stofnandi bandaríska safnsins Palestine Museum US, Faisal Saleh hóf undirskriftasöfnun sýningunni til stuðnings. Stofnunin sagði að höfnunin hefði verið byggð á þeim grunni að ekki þætti rétt að sýna list sem væri svo pólitískt hlaðin, en engu að síður væri pólitík áberandi í stórum hluta þjóðarskála tvíæringsins. Sýningin er beinskeytt og áhrifarík, með tilvísunum í líf í útlegð, hernám, dauða og eyðileggingu. Mér verður aftur hugsað til hliðstæðunnar á milli listar sem sköpuð er við ómögulegar aðstæður og feneysku trjánna sem vaxa án kjarngóðrar næringar.

Fulltrúi Íslands, Hildigunnur Birgisdóttir, sáir fræjum samstöðu með palestínsku þjóðinni innan veggja íslenska skálans. Verk Hildigunnar Heilbrigðir gómar. Heilbrigt líf (e. Healthy Gums. Healthy Life) eru blautþurrkur sem innihalda skilaboðin „Frjáls Palestína“ síendurtekin í smáu letri. Þurrkurnar flæða yfir skálann líkt og gnægð fræja sem gestum er frjálst að taka með sér sem minjagrip úr skálanum. Gestir skálans verða ýmist ruglaðir í ríminu eða skemmt yfir þurrkunum sem gegna mikilvægu hlutverki við að koma skilaboðum Hildigunnar til skila um undarleg tengsl okkar við fjöldaframleiddar vörur. Gestir dreifa þeim óvart um borgina, oft sér maður þær á gólfi Arsenale eða jafnvel í ferðamanna hverfinu San Marco. Þessar þurrkur sem dreifa sér um eyjuna gegna því performatífu hlutverki og dreifa skilaboðum um samstöðu með baráttu Palestínumanna. Í verkinu má finna samúð en jafnframt skýr skilaboð um afstöðu Íslands til þjóðarmorðsins sem á sér stað innan hins jaðarsetta ríkis. Á meðan ég skoða sjónarspil tvíæringsins rekst ég stundum á önnur fræ samstöðunnar, límmiða frá samtökunum Art Not Genocide Alliance. Þá má til dæmis finna í skálum ríkja á borð við Holland, Belgíu, Ísland og Írland. Meðal listamannanna sem þar sýna ríkir samstaða um að fordæma þátttöku landa sem stunda þjóðarmorð. Þegar ég sé límmiðann frá ANGA í íslenska skálanum leita aftur á mig súrrealískar hugsanir um það hvernig listamenn geta umbreytt sameiginlegum sársauka í tjáningu á víðsjárverðum tímum. Listamenn sem styðja ANGA opinberlega eiga á hættu aðmæta lokuðum dyrum í framtíðinni, rétt eins og fræ sem umbreytast í plöntur í kalksteini í miðju feneyska lónsins fá lítinn stuðning frá umhverfi sínu.

Ersan Mondtag. Monument to an Unknown Person, (2024)

Ég geng í gegnum garða Napóleons með nýjum Feneyskum vini. Hann bendir mér á plöntu og segir mér að hún beri latneska heitið Cistus creticus og að sé þekkt fyrir þrautseigju sína. Við göngum fram hjá þýska skálanum. Skálanum er best lýst sem lágstemmdur og háværum]. Fyrir utan hann stendur hrúga af jarðvegi sem listamaðurinn Ersan Mondtag hefur flutt hingað frá landi fjölskyldu sinnar í Tyrklandi. Upp úr jarðvegshaugnum hefur sprottið fjöldinn allur af óþekktum plöntum og vinur minn segir mér að fólk hafi kastað fræjum í moldina frá opnun tvíæringsins. Þetta vekur upp vissu innra með mér, forna löngun til að sá mínum eigin fræjum. Listin vex eftir allt saman ekki ekki upp úr engu, hún getur ekki verið til í tómarúmi, þú uppskerð eins og þú sáir. Til þess að blómstra sem listamaður þarftu að sinna grunnþörfunum. aftur á móti hafa palestínskir listamenn endurtekið sannað styrk sinn í mótlæti. Eftir leit á Google finn ég svör við spurningum mínum, í það minnsta einhverjum þeirra. Trén í Feneyjum voru upphaflega gróðursett í mýrum og fenjum lónsins, undir kalksteininum. Þar af leiðandi ekki í skilyrðum sem annars hefðu verið of óblíð til þess að líf gæti þrifist. Trén fundu sér sinn forða í umhverfi sem annars virtist ómögulegt til að geta fóstrað þau, rétt eins og Palestínumenn sem skapa í ofbeldisfullum aðstæðum. Listamenn þaðan sýna andóf og bjartsýni með sáningu fræja sem tákna varanlega von eins og uppvöxt trjáa. Með því að rækta land sitt heldur sköpun þeirra áfram að vera frumstætt form andófs sem skapar þannig von um líf fyrir komandi kynslóðir.

Þetta er sjötta grein um  Feneyjatvíæringinn þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála, óvissu samtímans. Titill aðalsýningarinnar er ,,Ókunnugir alls staðar’’ og er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Mirra Elísabet Valdísardóttir Wesneski er listfræðingur fædd 1988 frá Reykjavík. Hún skoðar mörkin milli listar, hreyfingar og náttúru sem heilunar aðferð. Mirra lauk BA-prófi í listfræði við Háskóla Íslands (HÍ) í desember 2023 og heldur áfram M.A námi í listir og velferð við Listaháskóla Íslands (LHÍ) í haust.

VIVIEN SANSOUR. Palestine Heirloom Seed Library, (2024)

FRIEDA TORANZO JAEGERAND. Rage Is A Machine In Times of Senselessness, (2024)

HILDIGUNNUR BIRGISDÓTTIR. Healthy Gums. Healthy Life, (2024) 

ERSAN MONDTAG. Monument to an Unknown Person, (2024)

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur