Heimsókn í vinnustofu Kristínar Helgu Ríkharðsdóttur

03.02.2025

„Ég spái fyrir um framtíðina með einu skrolli í einu.“

Á köldum vetrardegi í byrjun desember, hittum við Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur. Kristín er 31 árs listakona. Hún bauð okkur í litríka og huggulega vinnustofu sína í Laugarnesinu, nálægt myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Listsköpun Kristínar er skopleg og litrík en einnig umvafin óútskýranlegri dulúð. Verk hennar tvinna saman hennar eigið tilfinningalíf og hugarfar og atburði samtímans. Við hittum hana og ræddum um verk hennar og listrænt ferli.

A: Hvernig er samband þitt við list og sköpun?

Hvernig voru kynnin, var það ást við fyrstu sýn og hvernig er sambandið núna?

K: Ferill minn sem listamaður hófst á svipaðan hátt og hjá mörgum öðrum listamönnum: Mér var mikið hrósað fyrir teiknihæfileika mína þegar ég var barn. Eitt eftirminnilegt atvik á unglingsárunum leiddi til þess að ég hóf listnám. Ég var að taka nærmyndir innan í klósettskál og stjúpmóðir mín, Eygló, sem er líka listakona, sá myndirnar og varð hrifin af þeim. Hún sagði mér að ljósmyndirnar væru mjög listrænar og að ég myndi njóta mín í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Seinna meir fór ég í þann skóla og naut mín svo sannarlega vel. Þar með hófst sambandið mitt við listina.

Hvað varðar hvernig sambandið er núna, þá eru vissir hápunktar og lágpunktar. Hápunktarnir eru þegar ég er í vinnustofudvöl og hef tíma og rými til þess að skapa. Vinnustofudvalir eru frábær vettvangur til þess að kynnast áhugaverðum skapandi einstaklingum. Á hinn bóginn þá einkennast lágpunktarnir af fjárhagsóvissunni sem fylgir því að vera starfandi listamaður. Það getur verið erfitt að kljást við hana. 

A: Hvernig hefur internetið mótað hugarfar þitt gagnvart sköpun?

K:  Netið veitir mér mikinn innblástur. Hugmyndir geta sprottið upp frá auglýsingum sem birtast mér á netinu og með því að skrolla á samfélagsmiðlum, út frá einhverju sem algóriþminn sýnir mér. Ég reyni að skrolla með opinn huga, stundum birtist mér eitthvað sem veitir mér innblástur að nýju verki eða þróar áfram hugmynd um verk í vinnslu.  

Ég reyni einnig að vera glögg þegar ég vafra á netinu. Algóriþminn hefur endrum og sinnum kynnt mig fyrir persónulegum vandamálum sem ég var ekki einu sinni meðvituð um, sem ég hef svo tæklað og tekist á við gegnum listsköpun mína. Þá get ég sleppt tökunum og leyft ferlinu að ráða för.   

A: Þegar þú vitnar í auðþekkjanleg fyrirbæri í verkum þínum, má þar nefna internetið, sjónvarpið og tilhneigingu samfélagsins til neyslu á þessum miðlum, ertu að taka gagnrýna afstöðu? 

K: Mér líður ekki eins og ég sé að gagnrýna þess konar hegðun, kannski frekar að greina hana og spegla hana í sjálfri mér. Innsæið leiðir listræna ferlið mitt áfram og niðurstaðan getur verið óútreiknanleg. 

A: Hvenær hefur þú sýnt andspyrnu í þinni listsköpun? 

K: Það myndi vera þegar ég gerði verkið If You Can't Beat Them, Join Them. Í því verki bjó ég til „söluvöruna“ OBBSIDIAN© árið 2018. Á þeim tíma var sprenging í ferðamennsku á Íslandi, öll gistiheimili og veitingastaðir voru troðfull og hver einasti Íslendingur vildi græða og hagnast á ferðamannaflóðinu. Lundabúðir voru meðal annars að yfirtaka Reykjavík. 

Sumarið 2018 var ég að vinna sem landvörður í þjóðgarði þar sem mátti finna hrafntinnu. Hrafntinna er sjaldgæf og eftirsótt glersteind sem er friðlýst samkvæmt íslenskum lögum og því bannað að fjarlægja hana úr náttúrunni. Þá kviknaði hugmyndin að búa til gervi útgáfu af hrafntinnu. Gervi útgáfan var búin til úr venjulegum slípuðum steinum sem ég fann á byggingarsvæðum. 

Að lokum sýndi ég þessa steina á sýningu, ég hafði búið til stærri útgáfur af þeim ásamt smærri „vörum“ sem voru innpakkaðar og auglýstar. Ég hafði samband við íslenskan ASMR  áhrifavald og við fórum í samstarf. Hún gerði ASMR myndband þar sem hún strauk og kom við listaverkið eins og hún myndi auglýsa aðrar vörur. Á meðan á sýningunni stóð þá var gervi hrafntinnan einnig til sölu í einni af lundabúðunum sem voru að yfirtaka borgina. 

If you can't beat them, join them. 2018. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

If you can't beat them, join them. 2018. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

A: Ofurveruleiki er mikið til umfjöllunar í verkum þínum, meðal annars í veggteppamálverkum þínum sem þú skapaðir út frá reynslu þinni að sjá eldgos í fyrsta sinn og að hafa upplifað móðursýkina sem fylgir þeim. Hvað er það við ofurveruleikann sem veitir þér innblástur til sköpunar?

Er heimur verka þinna innan eða fyrir utan þennan veruleika? 

K: Ég byrjaði á seríu af veggteppamálverkum árið 2021. Á þeim tíma var ég í meistaranámi í New York og fékk þráhyggju fyrir myndböndum af eldgosinu sem stóð yfir á þeim tíma á Reykjanesskaga, heima á Íslandi. Með því að upplifa eldgosið úr fjarlægð og í gegnum skjáinn fékk ég heimþrá á sama tíma og mér leið eins og ég væri komin heim. Ég fylgdist með öllum fréttum og allri umfjöllun um gosið á netinu og sökkti mér algjörlega inn í atburðarásina og ringulreiðina úr fjarlægð. 

Að lokum ferðaðist ég heim til Íslands og sá loks eldgosið í eigin persónu. Ég gekk að gossvæðinu með hundruðum ókunnugra, þar vorum við öll samankomin, á þessum sérstaka stað, að ganga sömu leið til þess að sjá gosið. Þetta öfgafulla ferðalag með öllu þessu ókunnuga fólki var einstök upplifun og mér leið eins og ég hefði gengið í sértrúarsöfnuð. Það var eins og sena úr kvikmynd að fylgjast með nýju landslagi fæðast, beint fyrir framan sig.

Eldgos vekja með mér áhuga því þau geta táknað dauða og fæðingu á sama tíma. Eldgos mynda ný fjöll og nýtt landslag á meðan þau eyða og umbreyta því sem þar var áður. Þessi upplifun og þessar vangaveltur veittu mér mikinn innblástur. 

Ég tengdi þetta þema við internetið sem minnir mig einnig á síbreytilegt landslag. Það sem maður kemst í kynni við á netinu, auglýsingarnar, algóriþminn, allt efnið sem maður bregst við og gúgglar, er síbreytilegt. Netheimurinn er sífellt að breytast og þróast og þar sá ég líkindi við eldgosið.

Núorðið er ég farin að bæta fundnum hlutum við málverkin til þess að gera þau meira þrívíð. Innsæið leiddi mig inn á þessa braut og ég er spennt að sjá hvert þetta ferli leiðir mig. 

Eldgosa málverk. 2022. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

Eldgosa málverk. 2022. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

A: Hvernig fannstu fyrir þörfinni til þess að bæta fundnum hlutum við verkin? 

K: Ég fylgi innsæinu og leyfi verkunum að þróast nátttúrulega og fara nýjar og spennandi leiðir. Þannig held ég áfram tilraunamennskunni. Málverkin eru nú þegar þrívíð og ég hef verið að kanna leiðir til þess að bæta enn frekar ofan á þau. Má þess geta að ég hef bætt við þau efnisborðum, The Starry Night eftir Vincent van Gogh, ljósmyndum af fasteignasölum o.s.frv. 

Ég er einnig innblásin af samtímaviðburðum og hugarfari í samfélaginu. Umfram allt óttast ég ekki að verkin mín séu „kitsch“. Mér finnst það ekki neikvætt ef þau eru kölluð kitsch, það er nákvæmlega það sem ég reyni að framkalla. 

A: Er eldgosaserían ennþá í gangi? 

K: Serían heldur áfram svo lengi sem það eru einhverjar jarðhræringar á Reykjanesskaga. Munu jarðhræringarnar einhvern tímann hætta? Mun serían halda áfram að eilífu? Það kemur í ljós!

A: Hvernig blandar þú saman þínu innra tilfinningalífi við atburði sem gerast í kringum þig í listsköpun þinni? 

K: Þetta vinnur allt saman. Innblásturinn kemur frá persónulegum stað innra með mér og svo dreg ég umheiminn inn í verkið. Til dæmis þá var ég einu sinni með mikla þráhyggju fyrir dauðanum og þeirri hugmynd um að heilsa og heilbrigði sé eins og lottó. Mér fannst eins og það væri engin strategía þegar það kemur að því að vera heilbrigður, þetta er bara annað hvort heppni eða óheppni. Út frá þeim hugsunum gerði ég vídeóverk þar sem lottókona var persónugerving dauðans, einhver sem ákveður hver vinnur og hver tapar.

Þessar hugmyndir leiddu til verksins míns Game of Chess with the Lottery Lady sem ég gerði árið 2023. Í því verki blandaði ég saman lottó, sem er tilviljanakenndur leikur, við söguþráð kvikmyndarinnar The Seventh Seal (1957) eftir Ingmar Bergman, þar sem persónugerving dauðans teflir við deyjandi mann. 

Lottókonan er persónugerving dauðans í vídeóverkinu mínu. Hún birtist í sjónvarpi söguhetjunnar og tilkynnir honum að hann hafi verið óheppinn og hafi ekki unnið neitt og sé þar af leiðandi komin til þess að taka líf hans. Söguhetjan skorar á hana í skák, þar sem sterk strategía er nauðsynleg. Svo tefla þau upp á líf hans og dauða. 

Þó svo að ég hafi verið mjög upptekin við hugsanir um dauðann á þeim tíma sem ég gerði verkið þá náði ég blanda þeim tilfinningum við utanaðkomandi áhrifaþætti. Í vídeóverkinu talar Lottókonan um alls konar hræðslutilfinningar sem margir tengja við en þora ekki að ræða upphátt sín á milli, t.d. hræðsluna við það að eldast, að enda alein o.s.frv.  

A Game of Chess with the Lottery Lady. 2023. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

A Game of Chess with the Lottery Lady. 2023. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

A: Hvað hefur verið áhrifamesta verkið þitt hingað til? 

K: Mig langar að trúa því að ég eigi enn eftir að gera það! Áhrifamesta verkið mitt er framundan, eitthvað sem ég mun án efa skapa von bráðar! Mig langar ekki að setja þá pressu á sjálfa mig að ég muni skapa „besta listaverk allra tíma“. En mig langar ekki heldur að líta til fortíðar og sjá að mitt besta verk sé eitthvað sem tilheyrir fortíðinni og að ég muni aldrei aftur skapa neitt jafn gott. Vonandi mun áhrifamesta verkið verða bráðum að veruleika.

A: Það er gjörningablær yfir verkum þínum þó svo að þú framkvæmir ekki endilega gjörninga. Hvert er mikilvægi gjörninga og af hverju heldur þú að þessi blær sé yfir listsköpun þinni? 

K: Það er áhugavert því þó svo ég geri ekki endilega gjörningalist, þá fylgja gjörningar gjarnan tímatengdum miðlum, að mínu mati. Það þarf oft og tíðum að framkvæma gjörning til þess að tímatengd verk verði að veruleika og þar með helst allt í hendur. Jafnvel þó maður sé ekki sá sem framkvæmir gjörninginn, þá leikstýrir maður öðrum og í því felst gjörningur. 

Á meðan ég bjó úti í New York þá vann ég að seríu af vídeóverkum þar sem ég bjó til og lék karakter að nafninu Tísla. Tísla var gerð úr tveimur ruslatínum sem ég hafði fest við mittisbelti. Ég tók upp myndböndin með myndavélina vísaða niður og ég gekk um alla borg með tvær ruslatínur fastar við mittið á mér.

Ég var meðvituð um hve fáránlega ég leit út á meðan ég var í upptökum í Hudson Yards í The Vessel, sem er gríðarstór arkitektúr minnisvarði í New York. Sem betur fer pælir enginn í svona skrítnu sjónarspili í New York. En mér fannst eins og ég væri að framkvæma gjörning, þó svo enginn hafi verið að fylgjast með. 

A: Hvernig hafa viðbrögðin verið við verkum þínum? 

K: Fólk hefur lýst verkum mínum sem skoplegum með undirliggjandi og áhugaverðum leikbrag, en það skynjar einnig dekkri og satíriska undirtóna við nánari íhugun. 

Verkin mín hafa einnig verið kölluð maxímalísk og hafa sumir nefnt við mig að ég sé óhrædd í ákvarðanatökum á litavali og stílbrögðum. 

A: Þú ákvaðst að hafa afa þinn sem viðfangsefni í nokkrum verkum þínum. Hvernig upplifir þú aðskilnaðinn á milli einkalífsins og listarinnar?

K: Afi minn hefur alltaf verið í stóru hlutverki í listsköpun minni. Þegar ég útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands þá hjálpaði hann við uppsetninguna á lokaverkinu mínu ásamt því að leika í einu vídeóverki. Hann hefur einnig setið fyrir á nokkrum ljósmyndum og hann nýtur þess í alvöru, ég neyði hann ekki í eitt eða neitt. Á einhvern hátt er ég þar með að blanda saman einkalífi mínu við listina. 

Einmitt núna er ég að vinna að ljósmyndaseríu með afa mínum. Ég heimsæki hann og við tökum upp myndbönd innblásin af svokölluðum „get-ready-with-me" myndböndum með áhrifavöldum og frægum einstaklingum þar sem verið er að mála þessa einstaklinga á meðan þeir svara spurningum. Í okkar útgáfum mála ég andlit afa míns með barnslegri andlitsmálningu á meðan ég spyr hann spurninga um uppeldisárin hans og líf hans þegar hann var yngri. 

Eftir það, tökum við myndir heima hjá honum. Hægt er að lýsa heimili hans sem hefðbundnu heimili gamallar manneskju. Afi með andlitsmálninguna í þessu umhverfi (andlitsmálning er oftast tengd við börn á 17. júní) skapar óhugnanlegar andstæður sem mér þykir spennandi að kanna frekar. 

Innblásturinn fyrir verkinu kemur aðallega frá forvitninni sem ég hef um líf afa míns og þörfinni fyrir að skyggnast inn í minningar sem hann myndi vanalega ekki deila með mér. Verkið er leið fyrir mig til þess að spyrja spurninga sem ég hef aldrei fengið tækifæri, eða hugrekki, til þess að spyrja. Þannig notfæri ég mér listina til þess að tengjast manneskju í mínu einkalífi enn frekar. Serían er enn í vinnslu. 

Afa-sería í vinnslu. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

Afa-sería í vinnslu. Kristín Helga Ríkharðsdóttir.

A: Þar sem þú færð innblástur frá myndböndum gerð af áhrifavöldum og frægu fólki, myndir þú segja að afi þinn sé áhrifavaldur fyrir þér? 

K: Já, algjörlega. Ég bætti einnig mynd af honum við eitt eldgosa málverkið. Hann er alls staðar í listsköpun minni. 

A: Hvernig aðgreinir þú muninn á einkalífi þínu og listinni? 

K: Almennt séð geri ég greinarmun þar á milli, ég ræði ekki einungis list við vini mína til dæmis. Ef ég er í sérstöku hugarástandi get ég auðveldlega fengið innblástur alls staðar að, en það er samt einhver aðskilnaður. Hugur minn getur verið algjörlega lokaður fyrir listrænum hugsunarhætti og þá leyfi ég bara hlutum og innblæstri að líða hjá. 

A: Hver er daglega rútínan þín?

K: Á tímabilum þegar öll mín athygli fer í listsköpun, þá snýst daglega rútínan mín aðallega um að mæta á vinnustofuna og reyna að ná eins mörgu í gegn og auðið er. Ég reyni að eyða engum tíma í tölvunni við það að svara netpóstum til dæmis, það getur truflað sköpunarkraftinn. Að mínu mati á að lesa netpóst yfir kaffibolla í öðru rými. 

Líkamsrækt er lykilatriði í rútínunni minni. Líkamsrækt gerir mig afkastameiri og býr til dýrmætan tíma með sjálfri mér. Ég reyni að skipuleggja daginn minn þannig að ég byrji á æfingu og verði komin í vinnustofuna rétt fyrir hádegi. Uppáhalds tíminn minn til þess að vinna að listsköpun er í kringum og eftir hádegi því þá er heilinn á mér orkumeiri, vakandi og fullur eftirvæntingar. Ég virka ekki rétt á morgnana hvort sem er, svo ég er líklegri til þess að vinna seint heldur en að mæta árla morguns. 

A: Hvaða framþróun hefur þú skynjað í verkum þínum í samhengi við heim sem er í sífelldri breytingu?

Hvernig spáir þú fyrir um frekari þróun?

K: Ég spái fyrir um framtíðina með einu skrolli í einu. Netheimar eru rými fyrir mig til þess að fylgjast með og rannsaka það sem er í gangi í heiminum. Á netinu get ég fylgst með samfélagsbreytingum í hugarfari og tilfinningu hjá fólki um allan heim. 

Kristín Helga Ríkharðsdóttir

„Ég spái fyrir um framtíðina með einu skrolli í einu“:

Heimsókn í vinnustofu Kristínar Helgu Ríkharðsdóttur.
Texti: Auður Mist Eydal
Kvikmyndataka og klipping: Nadia Vallino

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5