Myndlist á Íslandi, nýtt tímarit um íslenska myndlist, fagnar útgáfu fyrsta tölublaðs á sýningarstaðnum Open, Grandagarði 27, sunnudaginn 7. mars milli kl. 13–17. Í tímaritinu eru fjölmargar greinar og umfjallanir, um sýningar og viðburði á undangengnu ári, viðtöl við listamenn, viðtöl við listamenn, úttekt á áhrifum heimsfaraldurs á myndlistarsenuna, verk eftir listamenn og samtal við mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Staðan er tekin á leikgleðinni í íslenskri myndlist, rætt um stöðu minnihlutahópa innan myndlistarsenunnar, grafið í sögubókunum og tvíhyggjunni ögrað. Ritið verður fáanlegt í öllum helstu bóka- og safnbúðum landsins, ásamt því að vera dreift til lista- og menningarstofnana á erlendri grundu, en blaðið er bæði á íslensku og ensku.
Við erum afskaplega stolt af þessari útgáfu. Okkar von er að blaðið festi sig í sessi sem miðja myndlistarumfjöllunar hér á landi, og stuðli þar með að framþróun og auknu samtali innan myndlistarsenunnar.
Ritstjórn Myndlist á Íslandi
Markmiðið með tímaritinu er að skapa öfluga miðju fyrir myndlistaumfjöllun og vettvang fyrir líflega umræðu um myndlist hér á landi. Tímaritið er samstarfsverkefni Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), myndlistardeild Listaháskóla Íslands, Listfræðafélags Íslands og Myndlistarráðs. Starkaður Sigurðarson er ritstjóri, með honum í ritnefnd sitja Katrín Helena Jónsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir.
Á haustmánuðum 2020 hóf ritstjórn myndlistartímaritsins Störu (fagblað Sambands íslenskra myndlistarmanna) viðræður við SÍM, KÍM, Myndlistarráð, myndlistardeild LHÍ og Listfræðafélag Íslands um fæðingu nýs myndlistartímarits. Markmiðið var að byggja á þeim góða grunni sem Stara hefur skapað, en með stuðning víðar að yrði hægt að skapa ennþá öflugri vettvang fyrir umræðu og greiningu á myndlist á Íslandi, breikka lesendahópinn og færa kvíarnar út í heim.
Í 1. tölublaði er að finna efni sem ritstjórn kallaði eftir, efni sem aðrir hafa óskað eftir að skrifa fyrir blaðið og efni unnið af ritstjórn og þeim aðilum sem sitja í stjórn blaðsins. Í því má lesa viðtal sem Daría Sól Andrews tók við listhópinn Lucky 3 þar sem þau ræða myndlist og stöðu minnihlutahópa á Íslandi innan sem utan listaheimsins. Einnig má lesa viðtal við Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur þar sem hún ræðir meðal annars viðbrögð ráðuneytisins við kórónuveirufaldrinum. Myndlistarverðlaunin fóru fram í fjórða sinn í febrúar og birtast tilnefningar og umsagnir um verðlaunahafa í þessu fyrsta tölublaði. Sigrún Hrólfsdóttir, deildarforseti myndlistardeildar birtir ítarlegt og nytsamlegt yfirlit yfir starfsemi deildarinnar. Margrét Elísabet Ólafsdóttir skrifar fyrir hönd Listfræðafélags Íslands um listfræðinginn Þóru Kristjánsdóttur sem meðal annars tók þátt í mótun Listasafns Reykjavíkur, en lítið hefur farið fyrir í sögubókunum. Claire Paugam skrifar um leikgleðina í íslenskri myndlist, Páll Haukur Björnsson skrifar um yfirlitssýningu Ástu Ólafsdóttur og hvernig hún ögraði tvíhyggjunni og Brynjar Jóhannesson skrifar um Plan-B hátíðina í Borgarfirði. Þar fyrir utan birtast verk fjögurra listamanna í pappírsgalleríi blaðsins. Hönnun blaðsins er í höndum Petter Spilde (PSSÁ).