Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 20. febrúar. Guðjón Ketilsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Teikn, í Listasafni Reykjanesbæjar. Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2020: Anna Guðjónsdóttir fyrir Hluti í stað heildar í Listasafni Reykjavíkur; Guðjón Ketilsson fyrir Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar; Hildigunnur Birgisdóttir fyrir Universal Sugar í Listasafni ASÍ; Ragnar Kjartansson fyrir Fígúrur í landslagi í i8.
Claire Paugam hlaut Hvatningarverðlaun ársins. Claire er franskur myndlistarmaður sem búsett hefur verið á Íslandi um árabil. Hún lauk myndlistarnámi við Beaux-Arts de Nantes Métropole árið 2014 og meistaranámi við Listaháskóla Íslands 2016 og hefur síðan verið ákaflega virk í myndlistarumhverfinu, bæði á Íslandi og Frakklandi. Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2019: Claire Paugam, Emma Heiðarsdóttir og Sigurður Ámundason.
Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 - 20 sátu Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Einar Falur Ingólfsson, Jóhannes Dagsson, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir og Helgi Þorgils Friðjónsson.