Myndlistarmaðurinn Sæmundur Þór Helgason hefur verið valinn úr hópi umsækjenda til vinnustofudvalar hjá International Studio & Curatorial Program (ISCP) í New York sumarið 2026. Dvölin spannar þrjá mánuði og er fjármögnuð af Myndlistarráði.
Sæmundur Þór vinnur með ýmsa miðla menningar þar á meðal kvikmyndagerð, fjármál, tísku og fjölmiðla. Verk hans snúa gjarnan samtímanum að sjálfum sér í þeim tilgangi að hafa áhrif á ímyndunarafl almennings og verða þannig virkt afl í samfélaginu. Árið 2025 stofnaði Sæmundur lánasjóðinn ‘Stichting SB’ í Amsterdam sem veitir vaxtalaus lán. Hann var með vinnuaðsetur hjá Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam 2020 - 2022.
Í New York fá gestalistamenn rúmgóða einkavinnustofu til afnota. Á meðan á dvölinni stendur skipuleggur ISCP reglulegar vinnustofuheimsóknir til listamanna frá sýningarstjórum og fagfólki. Farið er á söfn og aðra sýningarstaði og fyrirlestra þegar þeir bjóðast. Listamenn sem dvelja hjá ISCP fá aðgang að öflugu, alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans.
Sæmundur Þór er þriðji listamaðurinn sem hefur verið valinn til ISCP. Nú í sumar er Melanie Ubaldo í New York og árið þar á undan var það Kristín Helga Ríkharðsdóttir sem dvaldi hjá stofnuninni.
Sæmundur Þór Helgason til New York
02.07.2025
