Sagan sefar þunga sektarkennd

18.06.2024
Berlinde De Bruyckere. City of Refuge III (2024)

“Venice is like Disneyland” sagði gondólaræðarinn sem stýrði mér um síki Feneyja . Hann var klæddur í bláröndóttan bol, með ræðarahatt skreyttum lillafjólubláum pólíesterborða, eins og hann hafi stokkið úr teiknimynd, skopmynd af eigin menningu. “No one is going to live here in a few years”. Sektarkenndin yfir því að vera túristi í Feneyjum blómstraði í brjósti mér.

 Þegar þú gengur út af Santa Lucia lestarstöðinni í Feneyjum blasir við þér stærðar auglýsing með slagorðinu “Foreigners Everywhere”. Þú lítur kannski í kringum þig og hugsar, já það eru ‘foreigners everywhere’. Hvert sem þú ferð, þá er skærlituð auglýsingin fyrir Feneyjartvíæringinn áberandi: Foreigners Everywhere. Í Feneyjum er sektarkenndin ríkjandi og ókunnugir eru allstaðar. Hvernig skal leysa úr þeirri flækju, það veit ég ekki. Bara svona til að auka á sektarkenndina yfir því að vera í Feneyjum er unnið með punktakerfi  á matseðlinum á kaffiteríu Tvíæringsins. Punktakerfið sýnir hversu mikið kolefnisspor liggur að baki hverjum rétti. Suðræna ávaxtasalatið er með fimm af fimm í einkunn. Ruslið er troðfullt af ávaxtasalötum sem enginn kaupir samviskunnar vegna. 

Það ætti kannski að notast við slíkt punktakerfi fyrir sektarkennd. Þýskaland fengi fimm líkt og suðræna ávaxtasalatið, en annar fulltrúi landsins í ár er ísraelski listamaðurinn Yael Bartana, með útópískt verk sem fjallar um það að ferðast til fyrirheitna landsins í leit að betra lífi. Danmörk kannski líka, en grænlenski listamaðurinn Inuuteq Storch er búinn að taka yfir danska skálann - búið er að skrifa Kalallit Nunaat (rétt nafn landsins áður en íslendingurinn Eiríkur Rauði ákvað að gefa því annað) yfir nafn Danmerkur utan á húsinu. Falleg sýning um lífið á Grænlandi sem eyðir þó ekki langri sögu landsins af kúgun af höndum Dana, sem enn er í gangi. Ísraelski skálinn er lokaður, hermaður staðsettur fyrir utan öllum stundum. Verk Ísraela í ár ber nafnið Motherland og má sjá það í gegnum gluggann. Heyrst hefur að fólki hafi verið hleypt inn að aftan. Rússland er hvergi sjáanlegt þar sem það hefur lánað Bólivíu sinn skála. Sumir kalla það örlæti, aðrir leið Rússlands að nálgast lithíum námur Bólivíu.

En eins og fram hefur komið þá er yfirskrift Feneyjartvíæringsins í ár Foreigners Everywhere eða Ókunnugir alls staðar á góðri íslensku og snerta flestar sýningarnar á hugmyndinni um hina og á þemum eins og fólksflutningum, nýlendustefnu, upplifunum hinsegin fólks og innflytjenda. Samsýning tvíæringsins einblínir á listamenn frá suðurhveli jarðarinnar, aðallega suður-Ameríku og Afríku. Í borg sem allt að 110.000 ferðamenn heimsækja á hverjum degi (samanborið við þa 45.000 sem búa þar) verður titillinn Foreigners Everywhere dálítið írónískur, því það eru vissulega ókunnugir alls staðar í borginni. En með óræðan titilinn í huga á meðan maður gengur í gegnum sýninguna myndast ákveðin staðfesting á því að þeir 311 listamenn sem þar sýna, sem flestir eru frá suðurhveli jarðar, séu hinir ókunnugu.

En nóg um það, í eftirfarandi grein ætla ég að fjalla um tvær sýningar á tvíæringnum. Annars vegar sýninguna City of Refuge III eftir Berlinde De Bruyckere og hins vegar samsýninguna From Ukraine: Dare to dream in a world of constant fear. Báðar sýningarnar eru svokallaðir ‘collateral events’, eða auka sýningar fyrir utan aðalsýningasvæðin tvö, önnur er í einni af mörgum kirkjum borgarinnar (gondólamaðurinn sem ég minntist á í byrjun sagði mér að kirkjurnar væru 108 talsins) og hin í einni af mörgum höllum Feneyja (ít. palazzo). Báðar sýningarnar, rétt eins og restin af tvíæringnum, snerta á hugmyndinni um skjól en frá mismunandi sjónarhorni, kúgari á móti kúguðum. Sýning De Bruyckere, er ópersónuleg og samsýningin From Ukraine er persónuleg. Listamennirnir í samsýningunni eru frá löndum þar sem átök hafa átt sér stað og hafa jafnvel upplifað þau milliliðalaust. De Bruyckere er hins vegar frá Belgíu, fædd og uppalin í Gent þar sem hún starfar enn í dag. Þar af leiðandi er hún ein af örfáum listamönnum frá vestur-Evrópu sem er að sýna á tvíæringnum í ár (þ.e.a.s. ekki í þjóðarskála). Báðar sýningarnar eru staðbundnar (e. site specific) og unnar inn í rýmið sem þær eru í og er áhugavert að sjá samtalið milli staðar og verka, hvernig sögurnar þræðast saman. 

Berlinde De Bruyckere: City of Refuge III

Á eyjunni Isola San Giorgio Maggiore, sunnan við Arsenale er sýningin City of Refuge III eftir Berlinde De Bruyckere. Sýningin er í kirkju frá árinu 1566 sem ber sama nafn og eyjan en Benediktsmunkar hafa haft aðsetur á henni síðan árið 982. Titill sýningarinnar City of Refuge III kemur frá lagi eftir Nick Cave and the Bad Seeds sem spilaðist í byrjun. Sögumaðurinn í laginu hvetur hlustandann til að hlaupa í skjól, hlaupa til ‘the city of refuge’, því borgin sem þú ert í er full af blóði. Í sýningartextanum segir að San Giorgio Maggiore kirkjan hafi ávallt verið staður gestrisni og skjóls, og er þá verið að vísa í titil sýningarinnar. En titillinn, The City of Refuge III vísar einnig til Feneyja, sem byrjuðu sem borgríki árið 697, þegar fólk flúði ofsóknir á meginlandinu eftir fall Rómaveldis. Feneyjar voru, í mörg hundruð ár, ríki sem fólk flykktist til í leit að betra lífi, suðupottur menningar og myndlistar, hernaðar og viðskipta. 

En aftur að sýningunni, þegar gengið er inn í kirkjuna blasa við þér þrjár skuggalegar verur, í sitthvorum kima kirkjunnar. Stórar og drungalegar virðast þær svífa yfir þér, líkt og englar sem eru frosnir milli himins og jarðar. De Bruyckere kallar verurnar Arcangeli sem þýðir erkienglar og eru þær þaktar þungu efni sem hylur þær nánast alveg, fyrir utan fæturna sem virðast hanga líflausir undan efninu. Líkamarnir eru búnir til úr vaxi og eru huldir með dýraskinni sem þakið er vaxi svo það virðist frosið og stíft. Við hlið þeirra er risastór strigi, sem festur er á stillansa, þakin spegilfilmu. Þú horfir á eigið andlit á meðan þú horfir á engilinn.

 Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024).

Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024). Collateral Event of the 60th International Art Exhibition.

Sýningin heldur áfram í klaustri sem tengt er kirkjunni en búið er að breyta jarðhæð hússins í sýningarrými. Þar skiptist sýningin í þrennt. Í fyrsta rýminu eru þrír staflar af vaxbornu efni, dýraskinni, kurteislega brotið saman og staflað í hrúgu. Staflarnir virðast harðir en á sama tíma mjúkir. Í næsta rými eru fætur. Fætur og formlausar verur úr vaxi standa uppréttar í glerhylkjum, líkt og líkamspartar í formalíni á rannsóknarstofu. Í þriðja rýminu er skúlptúr sem minnir á altari og ofan á því liggur líflaus líkami og það virðist sem loftið í rýminu sé alveg kyrrt. Efri hluti líkamans er hulinn dýraskinni, líkt og englarnir í kirkjunni. Aðeins fæturnir sjást og snúa iljarnar upp, líkt og manneskjan liggi á maganum, nýbúið að fórna henni. 

Í lok sýningarinnar ferð þú eftir löngum gangi sem þakinn er glerskápum með fótum úr vaxi til sýnis. Fæturnir minna á Jesú á krossinum og enda gangsins er rými með glerborðum sem innihalda innblástur listamannsins. Til sýnis eru úrklippur úr tímaritum og dagblöðum, ljósmyndir, og bréfsnifsi sem sýna stríð. Líkamar liggja á götu með hvít lök dregin yfir þá. Mynd af Pietà eftir Michelangelo liggur við hlið fréttaljósmyndar af móður með látið barn í fanginu. Átakanlegt samansafn á myndum sem að mínu mati er nauðsynlegur endir á sýningunni. Þá sér áhorfandinn hvað er í raun á veru á bak við verkin og við áhorfið gat ég ekki annað en að hugsað til Palestínu, þar sem raunveruleiki fólks er einmitt sá sem ég horfi á á myndunum og í verkum De Bruyckere. 

De Bruyckere er innblásin af flæmskri endurreisn og táknmyndum kristindóms um dauða og upprisu. Hún er áhorfandi að líta inn, rannsakandi fornra goðsagna. Hún vefur slík þemu saman við nútíma sagnaminni og þjóðfélagsstöðu og í samtali við arkitektúr kirkjunnar, nær De Bruyckere að búa til óhugnanlega og kraftmikla sýningu en sjálf en hún er þó ávallt ókunnug. 

 Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024).

Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024). Collateral Event of the 60th International Art Exhibition.

From Ukraine: Dare to Dream in a world of constant fear

Annars staðar í borginni, á stóra kanalinum sem fer í gegnum Feneyjar og ber hið fína nafn Grand Canal, stendur höll að nafni Palazzo Contarini Polignac. Höllin var einu sinni í eigu prinsessu að nafni Winnaretta Polignac (áður Singer), erfingja saumavélaveldisins Singer. Með arfi sínum keypti hún höllina í Feneyjum ásamt eiginmanni sínum, hinum hrífandi en staurblanka franska prinsi Edmond De Polignac. Höllin varð að einu mikilvægasta samkomuhúsi lista í Evrópu og flykktist fólk þangað hvaðan af að. Meðal annars listamenn á borð við Pablo Picasso, Jean Cocteau og Claude Monet.

Claude Monet.  The Palazzo Contarini, 1908.

Claude Monet, The Palazzo Contarini, (1908).

Í dag er þar til sýnis sýningin From Ukraine: Dare to dream in a world of constant fear. Á sýningunni eru 22 listamenn- og hópar með verk til sýnis sem segja sögur af stríði, þvinguðum fólksflutningum, baráttu kúgaðra og áhrifum loftslagsbreytinga á stríðshrjáð svæði.  Í sýningartexta sem fylgir sýningunni er spurt: Can we imagine tomorrow? Do we have the courage to dream? 

Höllin er stór og þarf áhorfandi að þræða sig í gegnum hana, eitt glæsilegt herbergi eftir annað. Verkin á sýningunni eru falleg, viðkvæm og sorgleg. Á meðan ég skoðaði verkin sem bera með sér sorg og áföll, þá gat ég ekki annað en að ímyndað mér hvað átti sér stað í rýmunum sem þau voru staðsett í. Í höll eins og Contarini Polignac, sem hefur langa sögu af veislum og gleði, myndast furðuleg spenna. Brotnar freskur og flögnuð málning segja eina sögu á meðan baráttulagið Bella Ciao, sem hljómar úr einu rýminu, segir aðra. Á annarri hæð hallarinnar, í hliðarrými sem líkist kapellu, standa sex skjáir af mismunandi stærðum á víð og dreif um rýmið. Hver myndbandsrás sýnir barn, og einn þeirra tvö börn, liggjandi upp í rúmi. Þau virðast sofandi, umvafin mjúkri sæng, örugg. Verkið ber titilinn You shouldn’t have to see this og er eftir úkraínska listamannatvíeykið Roman Khimei og Yarema Malashchuk. Myndböndin eru af úkraínskum börnum sofandi í rúmum sínum. 

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

Síðan árið 2014, þegar stríðið á milli Úkraínu og Rússlands byrjaði, hefur Rússland numið á brott um 20.000 börn frá Úkraínu yfir á eigin yfirráðasvæði. Verkið dregur athygli að slíkum stríðsglæp með því að sýna börnin í eigin rúmum. En verk eins og þetta ætti í raun ekki að vera til. Í raun, ættu ekkert af verkunum á sýningunni að vera til þegar maður hugsar út í það, því þau eru fædd úr stríði. En þau eru til og við þurfum að kljást við það á einn hátt eða annann. Í dag erum við nánast ónæm fyrir myndum og myndböndum af stríði, sjáum þau nánast í hvert skipti sem við opnum samfélagsmiðla í símunum okkar - en höfum þó þau forréttindi að slökkva á símanum og halda áfram út daginn. Þegar ég gekk inn í rýmið í Polignac höllinni og sá mýktina og sakleysið sem geymist í verkinu You shouldn’t have to see this, fann ég aðeins fyrir sorg. 

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

Ókunnugir allstaðar!

Á Feneyjartvíæringnum virðist sagan vera hlaðin tilgangi. Feneyjar eru suðupottur myndlistar og menningar og það er erfitt að finna hreint borð í svo samanþjappaðri súpu af sögu. Saga listamannanna sem sýna á tvíæringnum blandast saman við sögu Feneyja, er þrædd saman þar til erfitt er að rekja upp vefnaðinn. Að hafa tvíæringinn hér, og nefna sýninguna Ókunnugir allstaðar veldur því að sýningin verður mögulega að fórnarlambi eigin metnaðar, föst í hugmyndinni um útskúfun hóps sem hún síðan staðfestir að sé sönn. 

En þó, að upplifa Feneyjartvíæring með svo hlaðin þemu sem forréttindapési úr Hlíðunum gefur mér þá tilfinningu að ég sé kannski sú ókunnuga og það er ég sem er föst í hugmyndinni um hina. Því svipaður raunveruleiki geymist í sýningunum City of Refuge III og From Ukraine, þó frá sitthvorum pólnum, og hvorug sýningin snertir á mínum eigin raunveruleika. Þó gat ég frekar samsannað mig þeirri seinni, þar sem ólíkt sýningu Berlinde De Bruyckere, þá nær samsýningin í Palazzo Polignac að sýna von. Hún sýnir baráttuanda og seiglu alvöru fólks. Ólíkt þunganum sem ég fann þegar ég gekk úr kirkjunni á Isola San Giorgio Maggiore þá fór ég út af samsýningunni From Ukraine með von í stað sektarkenndar í brjóstinu. 

Þriðji pistillinn frá Feneyjum um sýningar tvíæringsins þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála og óvissu samtímans, titill aðalsýningarinnar  ,,Ókunnugir alls staðar’’ sem er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Ragnheiður Íris Ólafsdóttir, einnig þekkt sem Rírí, er 23 ára listakona frá Reykjavík. Ragnheiður útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2023 og hefur síðan þá starfað sem listamaður í Reykjavík.  

Berlinde De Bruyckere. City of Refuge III (2024)

Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024). Collateral Event of the 60th International Art Exhibition.

 Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024).

Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024). Collateral Event of the 60th International Art Exhibition.

 Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024).

Berlinde De Bruyckere, City of Refuge III, (2024). Collateral Event of the 60th International Art Exhibition.

Claude Monet.  The Palazzo Contarini, 1908.

Claude Monet, The Palazzo Contarini, (1908).

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

You Shouldn't Have to See This, (2024) From Ukraine: Dare to Dream, Collateral Event of the 60th La Biennale di Venezia.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur