Íslensku myndlistarverðlaunin verða afhent í annað sinn 21. febrúar.
Forvalslistar dómnefndar Íslensku myndlistarverðlaunanna hafa verið gerðir opinberir. Fjórir myndlistarmenn eru í forvali til Myndlistarmanns ársins og þrír eru á lista Hvatningarverðlauna ársins. Alls bárust myndlistarráði um 70 tilnefningar. Af þeim fjölda voru 29 myndlistarmenn tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins og 10 hlutu tilnefningu til Hvatningarverðlauna ársins.
Eftirfarandi myndlistarmenn eru tilnefndir sem myndlistarmaður ársins 2019:
Eygló Harðardóttir (f. 1964) er tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna Annað rými í Nýlistasafninu.
,,Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju."
Guðmundur Thoroddsen (f. 1980) er tilnefndur til Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna Snip Snap Snubbur í Hafnarborg.
„Myndverk hans, aðallega málverk, vatnslitamyndir og keramíkverk, hafa til þessa verið uppfull af íróníu og svörtum húmor á kostnað karlaveldisins. Í þeim birtast nútíma karlmenn í viðvarandi tilvistarkreppu, uppteknir af sjálfum sér og margs konar fánýtri iðju, en ófærir um að fást við aðstæður í raunveruleikanum.”
Hekla Dögg Jónsdóttir (f. 1969) er tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna Evolvement í Kling & Bang.
„Hin hægláta en markvissa framvinda sem titillinn gaf til kynna varð smám saman ljós þegar gengið var um niðurhólfað sýningarrýmið. Eitt leiðarstef af mörgum var samstarf við aðra. Í því gaf listakonan að ákveðnu leyti frá sér stjórnina yfir útkomu hins skapandi ferlis, og varð þess þannig valdandi að til varð svigrúm þar sem eitthvað nýtt og ófyrirséð gat kviknað í samspili hennar og boðsgesta…“
Steinunn Gunnlaugsdóttir (f.1983) er tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir „Litlu hafpulsuna“, skúlptúr í Tjörninni í Reykjavík og framlag listamannsins til Cycle Music and Art Festival - Þjóð meðal Þjóða.
„Með Litlu hafpulsunni sætti listakonan lagi með afgerandi hætti í almenningsrými, í samhengi, sem gaf tilefni til að túlka verkið sem gagnrýni á menningarleg áhrif Dana á Íslandi til langs tíma, enda fólst í því augljós tilvísun til eins helsta kennileitis Kaupmannahafnar. Formið leiddi áhorfendur þó víðar og margir sáu í því háð og gagnrýni á karlaveldið.“
Hvatningarverðlaun
Þrír listamenn eru tilnefndir til hvatningarverðlaunanna.
Auður Ómarsdóttir (f. 1988) er tilnefnd til Hvatningarverðlauna ársins fyrir sýninguna Stöngin inn í Kling & Bang.
„Þar skautar hún yfir vítt svið persónulegrar reynslu og tilvísana í listasöguna og poppmenningu. Léttleiki og tilraunagleði listakonunnar kemur berlega í ljós í flæði og hugmyndaauðgi verkanna og hinn tregablandni undirtónn sem sást meðal annars í verkinu Goodbye/Cry me a river er víðs fjarri.”
Leifur Ýmir Eyjólfsson (f. 1987) er tilnefndur til Hvatningarverðlauna ársins fyrir sýninguna Handrit í D-Sal í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi.
„Leifur hefur lagt sérstaka alúð við að tileinka sér tækni og aðferðir á borð við þrykk, ristur, stimpla og keramík. Hann er tilnefndur fyrir sýningu sína Handrit í D-sal þar sem hann leitar til baka til hugmyndar sem kviknaði á námsárum hans. Þá þegar var brennandi áhugi hans á bókverkagerð vakinn og hugmyndin var að gera blaðsíður úr brenndum leir sem hver og ein stæði sem sjálfstætt bókverk.“
Fritz Hendrik (f. 1993) er tilnefndur Hvatningarverðlauna ársins fyrir sýninguna Draumareglan í Kling & Bang.
„Málverkið leikur í höndum Fritz Hendrik, og það er augljóst á þessari sýningu, sem öðrum, að hann hefur sérstakan hæfileika til að miðla inntaki og ásetningi í hverjum þeim efnivið sem hann velur sér. Draumareglan byggir á hugmyndum Fræðimannsins, skáldaðrar persónu sem áður hefur brugðið fyrir í verkum Fritz Hendrik, um mikilvægi stöðugrar svefnrútínu.“