Vígtennt hvíld frá listinni

13.08.2024
CLAIRE FONTAINE. Foreigners Everywhere, (2024)

Ég er Íslendingur sem býr í ítalskri borg. Fjarri frá nístingskulda Íslands sleiki ég sólina og gelato. Það er hásumar og ég er umkringd dýrindis mat, drykkjum og umfram allt, list. Samt hefur seinustu dögum verið eytt í hámhorf á sjónvarpsþættinum The Vampire Diaries. 

Í nokkra mánuði hafa ég og samstarfskonur mínar búið í Feneyjum sökum starfsnáms á hinum víðfræga og mikilsvirta Feneyjartvíæring. Við sjáum um íslenska skálann á sýningarsvæðinu Arsenale en listamaðurinn Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) var valin til að vera fulltrúi Íslands þetta árið. Við bæði mönnum vaktir í skála Hildigunnar og förum með leiðsagnir um verkin og útskýrum hugmyndirnar sem liggja þeim að baki. Ég er nýútskrifaður myndlistarmaður og þetta er flott starf á ferilskrána, svona ári eftir útskrift.

Þrátt fyrir að Feneyjar séu iðandi af alls kyns listasýningum og viðburðum þá þrái ég ekkert heitar en að fara heim eftir vinnu í loftræstu íbúðina okkar og hámhorfa á The Vampire Diaries. Sama hvað væri á boðstólum þá myndi ég kjósa The Vampire Diaries fram yfir það.

Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion

HILDIGUNNUR BIRGISDÓTTIR. Approx. 7%, (2024)

Skálinn sem teygir sig út

Listasýningar teljast almennt vera hámenning. Að vera listunnandi hefur í gegnum tíðina verið mikilsvirt í samfélögum víðsvegar um heiminn og Feneyjartvíæringurinn er í flokki frægustu listviðburða heims. Lífið mitt snýst um list og ég lifi inni í listinni þessa dagana. Ég ásamt samstarfskonum mínum höfum setið yfir skálanum hennar Hildigunnar og gleypt alla merkingu hans í okkur. Oftast eru þau sem sitja yfir skálum á Feneyjatvíæringnum og listasýningum almennt staðsett í hornum skálanna en Hildigunnur hefur komið okkur fyrir miðju rýmisins þar sem við förum ekki framhjá neinum. 

Sýningin ber titilinn That's a Very Large Number og er innsetning nokkurra hluta sem fjalla um neyslumenningu og samband manna við vörur sem eru framleiddar fyrir okkur sem neytendur. Hildigunnur vinnur mikið með fundna list og eru verk hennar á Tvíæringnum engin undantekning. Má sem dæmi nefna uppstækkaðar pakkningar, endurunninn gólfpanel sem ber með sér alls kyns vörumerki og uppstækkuð Barbí-leikföng, lærdómstól fyrir börnin okkar úr plasti. Í hvert sinn sem ég virði verkin hennar fyrir mér því meira uppgötva ég um þau. Ég endurvarpa minni eigin skoðun á þau og skapa þannig mína eigin merkingu. Því lengur sem ég er staðsett í skálanum því meira finnst mér hann bera með sér öðruvísi hugmyndafræði heldur en við fyrstu sýn. Hann gagnrýnir pólitík listasýninga. 

Hildigunnur fjarlægði vegg sem Tvíæringurinn var búinn að setja yfir glugga í skálanum. Hún kom síðan fyrir skjá með vídjóverki hinumegin við kanal sem sést út um gluggann. Þannig teygir hún sýninguna sína út um gluggann og yfir kanalinn. Vídjóverkið ber titilinn Approx. 7% (2024) og er bein útsending frá auglýsingaskilti við Kringlumýrarbraut í Reykjavík. Sýningin teygist þannig ekki einungis út um gluggann heldur alla leið til Íslands þar sem áhorfendum eru sýndar auglýsingar.

Sýningin hefur einnig teygt sig inn í hausinn á mér. Vegna verka Hildigunnar lít ég öðruvísi á hversdagsleg einkenni utan sýningaveggjanna líkt og auglýsingar. Ég er farin að hugsa um þær. Af hverju eru þær staðsettar hér? Hver er markhópurinn? Er þetta list? Þegar tilveran snýst svo mikið um list þá verður tilveran að list. Sitjandi yfir skálanum hef ég oftar en ekki tekið á móti móðum sýningargestum. Sýningasvæðið Arsenale er stórt og gestirnir koma inn við enda heimsóknarinnar haldandi því fram að þeir geti ekki innbyrt meiri list. Ég svara þeim með því að segja: I know! It's such a marathon! og hver einasti gestur kinkar kolli. Og eftir langhlaup þá er komið að hvíldinni. 

Ég þarf mína vin í þessari listrænu eyðimörk og áhugi minn á The Vampire Diaries er mín flóttaleið. Leið til að slökkva á heilanum eftir langan dag af ofhugsun. 

Írónísk internetkynslóð

Ég er hluti af kynslóð internetsins og netheimar og samfélagsmiðlar hafa alltaf verið mér flóttaleið. Þegar ég var barn og unglingur veitti ekkert mér ró beint í æð líkt og netleikvöllurinn. Ég eyddi æskunni innan netheima og kynslóðin mín er eins. Þegar við vorum börn tíðkaðist að hitta vinina innan spjallþráða í stað þess að fara út að leika. 

Ég var í grunnskóla þegar The Vampire Diaries komu út fyrir fimmtán árum. Þættirnir eru táningssápuópera um bræðurna knáu Stefan og Damon Salvatore. Þeir snúa aftur til bæjarins Mystic Falls í Virginiafylki í Bandaríkjunum eftir að tvífari gamallar kærustu þeirra beggja uppgötvast. Bræðurnir eru hátt í tvö hundruð ára gamlar vampírur og þeim fylgja röð af yfirnáttúrulegum verum, má þar nefna meðal annars nornir, varúlfa, drauga og alls kyns blöndum af fyrrnefndum verum. 

Þættirnir eru fjarri því að vera taldir hámenning, frekar lágmenning. Díalógurinn er einfaldur, allar sögupersónurnar deyja og rísa aftur frá dauðum í sífellu og söguþráðurinn verður súrrealískari með hverjum þætti því það virðist eins og höfundar þáttarins voru að verða uppiskroppa með hugmyndir eftir því sem á leið. Þessar lýsingar eiga einnig við aðra alræmda bóka- og kvikmyndaseríu sem kom út á sama tíma fyrir fimmtán árum, Twilight.

Síðustu ár hefur írónískt viðhorf internetkynslóðarinnar stuðlað að ákveðinni endurreisn Twilight. Á samfélagsmiðlum líkt og TikTok má sjá ungt fólk upphefja mynda- og bókaseríuna, kaupa sér varning og húðflúra á sig súrar tilvitnanir. Má einnig sjá aðdáendur spegla seríuna í heimspekilegum kenningum og kryfja Twilight með mikilli alvöru, líkt og þau myndu gera við hábókmenntir eða myndlistarverk. Svipað má segja um The Vampire Diaries, þó svo að þættirnir hafi ekki enn náð vinsældarstigi vampíruhliðstæðu sinni. Þeir eru þar af leiðandi ekki enn orðið það menningartákn sem þeir eiga skilið.

Kenningar um þessa endurreisn eru meðal annars þær að vampírusögurnar hafa farið hringinn, orðið svo „asnalegar“ að þær urðu það ekki. Svo spilar auðvitað nostalgía til auðveldari tíma internetkynslóðarinnar inn líka. Þetta er hluti af því af hverju Salvatore bræðurnir ná að heilla mig svona mikið þó að tilvist mín sé inni í listasýningu.

CLAIRE FONTAINE, Foreigners Everywhere, (2024), International exhibition at Arsenale

CLAIRE FONTAINE. Foreigners Everywhere (2024)

Ókunnugir alls staðar, alls staðar

Þema Tvíæringsins í ár er Foreigners Everywhere eða Ókunnugir alls staðar. Þemað er dregið frá samnefndu listaverki eftir bresk-ítalska listamannatvíeykið Claire Fontaine (stofnað árið 2004 í París) sem samanstendur af listamönnunum James Thornhill og Fulvia Carnevale. Listaverkið Foreigners Everywhere (2005-2024) dregur orðasamband sitt frá hópi mótmælanda frá ítölsku borginni Turin í byrjun 21. aldar, sem skrifuðu þetta á veggi sem mótsvar við upprisu útlendingahaturs í borginni. 

Verkið sjálft er textaverk með orðunum Foreigners Everywhere á mismunandi tungumálum, meðal annars á ítölsku Stranieri Ovunque og má finna verkið á tveimur stöðum á sýningarsvæðinu Arsenale. Titill Tvíæringsins er því á enskri og ítalskri tungu. Einn hlutinn af þessu umfangsmikla verki á Arsenale er staðsett hangandi yfir einni bryggjunni. Þar hanga mörg litrík flúorljós sem mynda orðasambandið á yfir 20 tungumálum. 

Samhliða verkinu hefur myndast spennandi fyrirbæri til viðbótar við verkið. Í safnbúðum Tvíæringsins geta gestir sýningarinnar keypt stuttermaboli og taupoka með titli sýningarinnar á ensku eða ítölsku. Það er því um alla borg sem hægt er að sjá ferðamenn og Ítali í senn labba um torg, sitja í aperitivo, í símanum um borð á strætóbátnum, alls staðar með varninginn frá sýningunni. Írónían er augljós. Þau eru foreigners/stranieri/ókunnug og þau eru everywhere/ovunque/alls staðar en við það að sjá allan þennan varning undirstrikar skilaboðin sem að listamannatvíeykið var að reyna að koma áleiðis. Skilaboð verksins eru beinskeytt. Útlendingahatur er út í hött þar sem það eru ókunnugir alls staðar, þar af leiðandi ert þú ókunnugur líka. Skilaboðin komast áleiðis yfir stórt svæði þar sem alls staðar má sjá útlendinga og ókunnuga. 

Tvíæringurinn eltir mig á röndum. Alla leið að brauðstandinum í hverfisbúðinni minni. Þar sem ég gríp í brauð og listaverk Claire Fontaine blasir við mér þegar ég lít upp á öxl manneskju sem grípur í sama brauðið. Verandi þema, titill og meðal mikilvægustu listaverka þessa Feneyjartvíærings er hægt að segja að taupokarnir og stuttermabolirnir séu hluti af hámenningu. En er varningurinn partur af verkinu sjálfu? Það má færa rök fyrir því þar sem þetta er textaverk byggt á graffiti gert út af borgararlegri óhlýðni. Ég myndi ekki endilega segja það, en hann undirstrikar skilaboðin og lyftir þeim upp.

Stöðug áminningin um Tvíæringinn kallar á flóttaleiðina til Mystic Falls. Að njóta þess að sitja í þögn með Salvatore bræðrunum góðu. 

DANIELLE FREAKLY, Please Say (2024), Seychellois Pavilion

DANIELLE FREAKLY. Please Say (2024)

Segðu „Seychelles“

Fleiri listaverk á Tvíæringnum teygja sig út fyrir sýningarveggi og inn í huga áhorfandans. Þjóðarskálinn hjá landinu Seychelles á Arsenale er samsýning með verk eftir fjóra listamenn. Eitt verkanna ber titilinn Please Say (2024) og er eftir ástralsk-seychellska listamanninn Danielle Freakly (f. 1982).

Verkið er nýr samskiptamáti. Áhorfendur fá leiðbeiningar um tjáningarleik þar sem einstaklingar sem kunna ekki endilega sama tungumálið eiga að halda uppi samræðum með notkun töfraorðsins Say eða segðu. Markmiðið  er að ná að eiga áhugaverð samskipti óháð tungumáli, til dæmis við einhvern með litla færni í ensku. 

Starfsfólk sýningarinnar réttir áhorfendum grænbláa borða til þess að festa á sig með frekari leiðbeiningum. Leikurinn felst svo í því að ef það vill svo til að þú rekst á einstaklinga með borða átt þú að geta hafið samræður. Í spjalli mínu við listamanninn sjálfan, Freakly, sagði hún mér að skálinn hjá Seychelles heldur reglulega matarboð þar sem öll samskipti fara eftir þessum reglum. Markmið listamannsins er að rannsaka eyðingu tungumála í kjölfar nýlenduhyggju og afmynda hefðbundna samskiptamáta til þess að kryfja hversdagslegan hugsunarhátt.

Tungumál og samskipti sem listaverk. Tvíæringurinn hefur tekið yfir alla króka og kima Feneyja sem og lífs míns. Það er ekki slæmt, góð hugaræfing og hjálpartól til að sjá list og listræna möguleika í hversdagslegum hlutum og ég er í Feneyjum vegna listarinnar. En eftir að hafa verið í þessum aðstæðum í nokkra mánuði minnkar úthaldið í garð listarinnar. Fyrir skömmu hitti ég einstakling á stangli í Feneyjum sem bar sama borða og ég frá skálanum í Seychelles. Borðann hafði ég fest á taupokann minn án þess að hugsa út í hvað myndi gerast ef ég yrði vör við annan einstakling með sama borða. Svo þegar það kom að stundinni, fyrir utan veggi sýningarsvæðisins, þá flúði ég aðstæður og fjarlægði borðann. 

List er ekki einungis fyrir meðlimi

Eftir dvöl mína hér í Feneyjum hefur hugarfar mitt breyst gagnvart hversdagsleikanum, mörkin eru orðin óskýrari varðandi hvað sé list og hvað sé það ekki. Ég hef séð listina og hámenninguna í tungumáli, taupokum og í auglýsingu fyrir svitalyktareyði, sem hluti af Tvíæringnum en einnig utan hans. Ég hef staldrað við graffiti og auglýsingu á einkennilegum stað og séð listina í því þar sem þau eru mér áminning til fyrrnefndra verka. Hvernig má það vera að listin getur fyrirfundist þar en ekki í The Vampire Diaries sem taldir eru vera lágmenning? 

Þróun myndlistar í að verða óaðgengileg fyrir meðalmanneskju er ekki endilega jákvæð. Aðgengileg list sem veitir stórum hópum af mismunandi einstaklingum hughrif er talin vera góð. Sum myndlist er gerð til þess að tala um og getur verið óskiljanleg fyrir manneskju sem hefur ekki æft myndlistarlæsi. Punkturinn er ekki sá að myndlist með mikla hugmyndafræði sé verri eða betri heldur en einföld aðgengilegri list. Frekar sá að það verður að vera rými fyrir alls kyns list til að blómstra, einfaldri afþreyingu sem og merkingarmeiri og þyngri list. Það skapar einnig tækifæri fyrir stærri hóp af mismunandi einstaklingum til þess að vera listunnendur. Báðir möguleikarnir, afþreyingin sem og hugaræfingin, eiga þó sinn sess sem hluti af menningu. Og þar af leiðandi vampírubræðurnir mínir góðu.

Þetta er fjórði pistillinn frá Feneyjum um sýningar tvíæringsins þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála, óvissu samtímans. Titill aðalsýningarinnar er „Ókunnugir alls staðar“ og er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Auður Mist, oftast kölluð Auja Mist, er 23 ára myndlistakona frá Reykjavík. Auja útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands af myndlistardeild árið 2023 og hefur síðan þá starfað sem listamaður í Reykjavík.

CLAIRE FONTAINE. Foreigners Everywhere, (2024)

CLAIRE FONTAINE. Foreigners Everywhere, (2024) International exhibition Arsenale

Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion

HILDIGUNNUR BIRGISDÓTTIR. Approx. 7%, (2024) Icelandic Pavilion

CLAIRE FONTAINE, Foreigners Everywhere, (2024), International exhibition at Arsenale

CLAIRE FONTAINE. Foreigners Everywhere (2024) International exhibition Arsenale

DANIELLE FREAKLY, Please Say (2024), Seychellois Pavilion

DANIELLE FREAKLY. Please Say (2024) Seychelles Pavilion

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur