Heiðursviðurkenning myndlistarráðs 2024: Hreinn Friðfinnsson
Að þessu sinni féll Heiðursviðurkenning myndlistarráðs í skaut Hreins Friðfinnssonar. Því miður gafst ekki færi á að veita Hreini viðurkenninguna formlega sökum þess að hann féll frá fyrr í mánuðinum, eftir langan og óslitinn listferil. Á verðlaunaafhendingunni var minningu Hreins heiðruð og Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafn Reykjavíkur, flutti erindi um verk hans og ævistarf.
Að þessu sinni féll Heiðursviðurkenning myndlistarráðs í skaut Hreins Friðfinnssonar. Því miður gafst ekki færi á að veita Hreini viðurkenninguna formlega sökum þess að hann féll frá fyrr í mánuðinum, eftir langan og óslitinn listferil. Á verðlaunaafhendingunni var minningu Hreins heiðruð og Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafn Reykjavíkur, flutti erindi um verk hans og ævistarf.
Enda þótt Hreinn hafi lengst af dvalið utan landsteinanna hafa áhrif hans á íslenskan myndlistarvettvang ætíð verið umtalsverð og enn þann dag í dag verða verk hans nýjum kynslóðum tilefni til frumlegrar hugsunar. Hreinn er einn af virtustu listamönnum íslenskrar listasögu og verk hans má finna í safneign listasafna um allan heim.
Umsögn Myndlistarráðs:
List Hreins hefur alla tíð verið á huglægum nótum og fjallað um merkingu hluta og orða í mannlegum tengslum. Snemma á ferlinum leiddi hann framvarðarsveit myndlistarmanna sem nýttu sér ljósmyndun sem framgangsmáta listar sinnar. Verk Hreins á þessum tíma einkenndust af því að ljósmyndin var nýtt sem táknmynd um eitthvað annað, vísbending um hugmynd eða hughrif, ferli eða ástand. Gott dæmi um þetta er verkið Five Gates for the South Wind, gert árin 1971 til 1972. Við gerð þess reisti Hreinn fimm einföld garðhlið á víðavangi þannig að þegar sunnanvindurinn blés opnuðust hliðin og sveifluðust til í vindinum. Hreinn tók ljósmyndir af verkinu og lét þar við sitja. Einu ummerki verksins eru ljósmyndirnar sem stillt var upp á hátíðlegan hátt með lýsingu á verkinu í miðpunkti. Þannig vekur verkið hughrif um eitthvað sem er á áberandi hátt utan þess, einfalt og fallegt í hugsun.
Þegar leið á áttunda áratuginn og fram á þann níunda þróuðust verk Hreins á
áhugaverðan hátt þegar áherslur hans færðust yfir á efniskennd verkanna sem hann nýtti í auknum mæli á táknrænan hátt. Mismunandi efniviður og form voru upphafin til að skapa háleitar tilfinningar og mikilsverðar. Verkin höfðu nánast trúarlegt yfirbragð án tengingar við trúarbrögð. Í verkinu From Time – To Time frá 1979 skapar samspil einfaldra mynda og flæðandi texta spennu á milli hluta verksins. Það er í bilinu á milli þeirra sem óræð merking verður veruleikanum yfirsterkari. Í miðið er ljósmynd af eldingu, kraftlosun. Á vinstri hlið er klæði sem hylur óræðan líkama eða hlut, mynd sem er spegluð til hægri. Hér eru dulin öfl og kraftur alheimsins túlkuð í nákvæmri samsetningu texta og myndar. Í verkinu A Folded Star frá 1983 hefur ljósmyndin vikið sem tjáningarmáti. Miðpunkturinn er fimmhyrndur flötur úr samanbrotnu svörtu silki þar sem jaðrarnir eru eins og þeir hafi verið rifnir. Fagurritaður texti á stalli undir myndinni gefur til kynna hvers eðlis fimmhyrningurinn er – samanbrotin stjarna. Það er nærtækast að túlka verkið sem einhvers konar grafskrift fyrir drauma og óskir nútímans. Grásvartur tónn verksins vekur hugmyndir um dauða og er skær stjarnan, unnin úr höfðinglegu efni, orðin að svartholi hugmyndanna.
Verkið Interior frá 1989 er svo gott dæmi um það hvernig list Hreins tók á sig aukinn blæ naumhyggju og hversdagsleika. Hér nýtir hann einfalda miðla til að framkalla galdur og umbreytingu. Þessi galdur rýfur hversdagsleikann og ber með sér óþekktar víddir. Í verkinu eru einföld efni sett í nýtt samhengi, myndarammar úr tekki og kassi úr sama efni. Í römmunum eru blæbrigðalausir myndfletir. Í stóra rammanum, þar sem með réttu ætti að vera spegill, er galvaníseruð járnplata. Í minni rammanum er myndin slípað svart granít. Kristallinn á enda skaftsins sem stendur upp úr kassanum ber með sér yfirbragð töfrasprota. Þegar litið er ofan í kassann blasa við spegilfletir er búa til margfalda kaleidóskópíska mynd sem leikur fyrir augunum. Verkið í heild dregur á óvæntan hátt fram galdurinn í því hversdagslegasta, þema sem Hreinn hefur unnið með æ síðan á áhrifaríkan hátt. Á sýningu eftir sýningu birtist galdurinn og leikurinn sem býr að baki einfaldri framsetningu hversdagslegs efniviðar. Í verkinu Stirring Sticks frá 2013 verða spýturnar sem málarinn notar til þess að hræra í málningunni að vísunum í alheiminn í allri sinni vídd. Á sýningunniKletti, sem er nýlokið í Ásmundarsal, verða pappakassar að vettvangi töfra í nýjasta verki Hreins.
Það er ljóst að sú auðuga sýn sem Hreinn hefur veitt okkur um árabil heldur áfram, enn um sinn. Það er sú sýn á mannsandann, hugmyndaheiminn og hið myndræna sem við í myndlistarráði tökum fagnandi, nú þegar við heiðrum Hrein Friðfinnsson og veitum honum heiðursviðurkenningu fyrir ævistarf sitt.