Samsýning ársins 2024: Að rekja brot
Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir samsýningu ársins 2023 hlýtur sýningin Að rekja brot (e. Tracing Fragments) í Gerðarsafni í Kópavogi.
Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir samsýningu ársins 2023 hlýtur sýningin Að rekja brot (e. Tracing Fragments) í Gerðarsafni í Kópavogi. Á sýningunni, sem sett var upp í tveimur meginsölum safnsins, voru sýnd ný og nýleg verk 6 sýnenda, þar af tveggja íslenskra einstaklinga af erlendum uppruna. Verk listafólksins á sýningunni fjölluðu um tengsl sjálfsmyndar og þjóðernis, uppruna og persónueinkenna og persónulega sögu í tengslum við hina stóru sögu.
Sýnendur: Kathy Clark, Sasha Huber, Hugo Llanes, Frida Orupabo, Inuuteq Storch og Abdullah Qureshi
Sýningarstjóri: Daría Sól Andrews
Sýningin og metnaðarfull dagskrá er henni fylgdi á sýningartímanum, auk sýningarskrár, snerti á áleitinn hátt á margvíslegum þáttum í flókinni sögu nýlendu- og kynþáttaofbeldis, endurheimt hugtaka, svo sem yfirvalds og fórnarlambs, kúgun og endurheimt sögulegrar arfleifðar. Ekki síður fjallaði sýningin um margvísleg hlutverk handverks og listsköpunar í slíkri endurheimt, bæði í gegnum listsköpun sem leið til að takast á við fortíðina og sem iðkun og samskiptaform er heiðrar sköpunarleiðir og menningararf formæðranna. Hluti sýningarinnar fólst í röð fyrirlestra þar sem fræðafólk fjallaði um norræna kynþáttahyggju, sýnileika og ósýnileika jaðarsettra hópa og menningu á tímum samþjöppunar og ritskoðunar.
Það er mat dómnefndar að sýningin tali beint inn í stærri umræðu um afnýlenduvæðingu innan listanna og félagsvísindanna og hafi opnað fyrir frekari samræðu innan listalífsins hér á landi um fjölbreytileika, jaðarsetningu, gagnrýna sýn á sögulega arfleifð og þann fjársjóð sem við eigum hér á landi í listafólki með fjölbreyttan bakgrunn.