120° / ÓMUR
Áki Ásgeirsson

Á þessari sýningu verður frumflutt nýtt hljóðverk eftir Áka Ásgeirsson sem ber heitið 120°.
120° er hljóðinnsetning sem er án upphafs og endis. Hljóðfærin eru tölvustýrð og sjálfspilandi, en háð hvoru öðru og áheyrendum. Framvinda tónlistarinnar er hæg en umlykjandi, hún á sitt innra lífkerfi en einnig ytri líkama hljóðfæranna sem lifa saman í þessu stóra ómandi rými, vistkerfi hljóðs, tóna og hryns.
Tónskáldið og listamaðurinn Áki Ásgeirsson býr til sín eigin tölvustýrð hljóðfæri, hugbúnað og hljóðinnsetningar ásamt því að semja verk fyrir hefðbundin hljóðfæri. Hann er virkur í íslenskri tilraunatónlist sem tónskáld, hljóðlistamaður og flytjandi.
Áki er með bakgrunn í tónlistarspuna, raftónlist, kóðun og kerfisbundinni tónlist og er jafnframt virkur í samstarfi við aðra listamenn frá ólíkum hornum listheimsins.
Áki er einn stofnanda S.L.Á.T.U.R. og raflistahátíðarinnar RAFLOST. Áki hefur frá 2005 starfað sem kennari í tónslistarforritun, hljóðlist, tónsmíðum og miðlatengdum raflistum. Tónlist Áka hefur hlotið athygli í tilraunatónlistarsenunni og verið flutt víða um heim.
Listamaður: Áki Ásgeirsson