Jöklablámi
Samsýning / Group Exhibition

Jöklablámi er margmiðlunarsýning, tileinkuð fyrsta Alþjóðaári jökla. Uppistaða sýningarinnar er myndefni (ljósmyndir og myndbönd) af jöklum Hornafjarðar sem Þorvarður Árnason hefur skapað/safnað í næstum tvo áratugi, einkum þá að vetrarlagi. Þorvarður er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og hefur ferðast víða um jökulheima Hornafjarðar, dvalið þar, notið ægi- og ævintýrafegurðar og leitast við að fanga litadýrð jökla og mikilfengleika þeirra með ýmis konar myndavélum. Jöklamyndir hans eru, í senn, vitnisburður um veröld sem var – jöklalandslag sem nú er óðum að hverfa – og tilraunir til að ná utan um margvíslega, einstaka fagurferðilega þætti sem undirbyggja sjónræna upplifun af jöklum. Sýningin dregur nafn sitt af sérstæðum bláum lit – jöklabláma – sem alla jafnan er aðeins sýnilegur um hávetur, eftir að jökulísinn hefur undirgengist ákveðin árstíðabundin hamskipti. Jöklablámi hefur óhjákvæmilega sterka skírskotun til yfirstandandi hamfararhlýnunar en veltur um leið upp áleitnum spurningum um nauðsyn á aukna samtali vísinda og lista varðandi aðgerðir gegn slíkum hamförum.
Jöklablámi er sjálfstætt framhald sýningarinnar Blámi sem sett var upp í Listasafni Svavars Guðnasonar árið 2023 og þar sem áhersla var lögð á samtal og samvinnu við aðra lista- og fræðimenn.
Sýnendur Jöklabláma eru, auk Þorvarðar, Þóranna Dögg Björnsdóttir, Konstantine Vlasis og Gústav Geir Bollason, ásamt fimm ungum frönskum listamönnum og -nemum, Leïla Vilmouth, Clara Midon Gomez, Mïa Brenguier, Céleste Philippot, Paulinea Brami sem taka þátt í þverfaglegri vinnustofu sem skipulögð var í tilefni sýningarinnar
Listamaður: Samsýning / Group Exhibition
Sýningarstjóri: Þóranna Dögg Björnsdóttir