Kveðja
Kristín Gunnlaugsdóttir
Sýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur. Verkin byrja sem teikningar sem að listakonan hefur unnið hratt og í trausti þess að innsæi vísi veginn, en svo yfirfært í útsaum og saumað í mismunandi litan striga með einbandi.
Kristín er þekkt fyrir mikla breidd í verkum sínum, allt frá smágerðum málverkum sem unnin eru eftir aldagamalli hefð, til margra metra hárra útsaums- verka sem sprengja skalann. Myndefnið ævinlega sprottið úr reynsluheimi kvenna. Sannleikur sem birtist okkur bæði draumkenndur og há raunsær.
Í verkunum á sýningunni skapast innri spenna milli hinna fíngerðu en jafnframt frjálsu línuteikninga og hinna dökku viðarramma sem þær hvíla í. Kristín Gunnlaugsdóttir er fædd á Akureyri 1963. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og Handíðaskóla Íslands frá 1984-87, lærði íkonagerð í klaustri í Róm á Ítalíu 1987-88 og útskrifaðist frá Accademia di belle Arti í Flórens 1988-94. Kristín hefur eingöngu starfað við myndlist, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, heima og erlendis. Verk hennar eru fjölþætt í tækni en byggja á klassískri hefð málaralistarinnar. Hún vinnur með teikningu, málun á pappír og striga, eggtemperu á tré með blaðgulli og saumuð verk á striga. Verk Kristínar eru í eigu helstu opinberra safna landsins, ásamt fjölda fyrirtækja og einkaaðila. Kristín hefur einnig verið stundakennari við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands frá 2016. Hún hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína og var veitt fálkaorðan árið 2018 fyrir framlag sitt til myndlistar.
Listamaður: Kristín Gunnlaugsdóttir