Laglínur

Monika Grzymala

Monika - Berg Contemporary - SONGLINES

Monika Grzymala hlustar með höndunum. Hún dregur línuna og fléttar hugsanir sínar stöðugt inn í rýmið um leið og hún vinnur. Sjálf lýsir hún eigin sköpunarferli sem uppfullu af áfergju, en verk hennar eru oft staðbundin og byggja á líkamstjáningu listamannsins. Hún er best þekkt fyrir umfangsmiklar innsetningar sínar og handgerð pappírsverk, en þetta er önnur einkasýning hennar í BERG Contemporary og er sterkur vitnisburður um marglaga sprengikraft hennar sem listamanns. Titill sýningarinnar sprettur frá pappírsverkum, sem Monika handmótar í þar til gerðu verkstæði í Berlín, og er staðsett undir tónlistarskóla. Með því að binda inn hljóðin sem berast á meðan hún skapar verkin, myndast drættir, melódíur verða að línum, ljóðum án orða, konsertum í rými.

Þegar við göngum inn á sýninguna, stöndum við fyrst frammi fyrir flæði alltumlykjandi límbandsstrúktúrs, sem hún kallar á frummálinu Raumzeichnung (eða rýmisteikningu), og um leið fáum við sterka tilfinnningu fyrir eigin skala og stærð. Svart límbandið virkar sem framlenging og geymir leifar af hreyfingum, bendingum og tilfærslum listamannsins. Líkt og hún lýsir sjálf; „Öll hljóðin og sögurnar eru til nú þegar, og eru í stöðugri samþættingu. Þegar ég skapa verkin þarf ég bara að grípa laglínurnar og gera þær sýnilegar í nýju verkunum.”

Fram hjá línum pappírsverkanna, sem liðast eins og ummerki í snjó, sjáum við Kinesphere, sem er fléttaður, hangandi skúlptúr í innra rými salarins. Fyrirbærinu mætti líkja við mannlegt valdsvið, og endurspeglar hversu langt faðmur og spor manneskju nær, og markar þannig persónulegt rými í samskiptum við aðra. Verkið er í stöðugri þróun, og hefur verið sýnt tvisvar sinnum áður, en aldrei á sama hátt. Það breytir um lögun í hvert sinn og aðlagast umhverfinu, líkt og það vaxi með hverjum stað og einstakling sem mætir því. Þannig virkjum við verkið, um leið og það virkjar okkur, og ósjálfátt rennum við saman við hreyfiminni verksins, tilvera okkar í rýminu samlagast valdsviði verksins. Á ljóðrænan hátt verður til inngrip í arkitektúrinn líkt og í límbandsverkinu, línurnar eru bara litaðar okkur sjálfum.

Að lokum má segja, að sé leitað eftir samnefnara í verkum Moniku Grzymala, þá hljóti hann að vera vöxtur og eilíf breyting. Línan á sér engan endapunkt, og er líkt og plöntur og tré, sem halda stöðugt áfram að vaxa, en eiga sér takmarkaðan líftíma . Handgerð pappírsverk hennar eiga uppruna sinn í trjám, og línurnar í þeim eru jafn mikilvægar og yfirborðið sjálft. Listamaðurinn hefur jafnvel gengið svo langt að benda á að í gegnum teikningu erum við ekki bara að draga fram það sem býr innra með okkur, heldur séum við jafnframt að teikna jörðina sem svo teiknar okkur til baka. Allt er gagnkvæmt, líkt og tré sem þarf einhvern til þess að heyra það falla til jarðar svo það geti gefið frá sér hljóð, annars er það bara hröð hreyfing agna. Laglínurnar eru þarna, en það þarf einhver að hlusta.

Listamaður: Monika Grzymala

Dagsetning:

02.02.2024 – 16.03.2024

Staðsetning:

BERG Contemporary

Smiðjustígur 10 / Klapparstígur 16, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýningHjólastólaaðgengiEnginn aðgangseyrir

Opnunartímar:

Þri – fös: 11:00 – 17:00 Lau: 13:00 – 17:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5