Larissa Sansour – Fortíðin var aldrei, hún bara er
Larissa Sansour
-2000x1251.png&w=2048&q=80)
Fortíðin var aldrei, hún aðeins er, einkasýning Larissu Sansour sem jafnframt er fyrsta sýning hennar á Íslandi, opnar í Listasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 22. maí kl. 18-20. Öll eru boðin velkomin á opnun.
Larissa Sansour (f. Austur-Betlehem 1973) er palestínsk-danskur myndlistarmaður sem hefur hlotið lof á alþjóðavísu fyrir áhrifamiklar kvikmyndainnsetningar. Á 25 ára ferli sem spannar notkun ólíkra miðla allt frá málverki til ljósmynda og síðar kvikmynda, hefur Larissa sýnt í þekktum listasöfnum á borð við MOMA í New York og Tate Modern í London. Árið 2016 hlaut hún verðlaun alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Guanajuato (GIFF) fyrir bestu tilraunastuttmyndina, In The Future They Ate From The Finest Porcelain (2016). Þremur árum síðar, árið 2019, var hún fulltrúi Danmerkur á 58. Feneyjatvíæringnum í myndlist.
Larissa Sansour hefur unnið náið með rithöfundinum, leikstjóranum og handritshöfundinum Søren Lind í rúmlega tvo áratugi og sviðsetur kvikmyndir sínar í vísindaskáldlegu umhverfi. Um leið og hún sækir í palestínska sagnabrunna velta verk hennar einni upp mögulegum framtíðarsýnum. Þarna er tekið á heimspólitík gegnum einstakar myndir og ljóðrænt mál. Myndirnar eru á arabísku og aðalpersónurnar eru konur. Þær fjalla um missi, sorg, vald, söguritun og það hlutverk sem minni spilar í að móta bæði einstaklingsbundna og sameiginlega þekkingu – verk hennar sýna mögulega mótspyrnu við handahófskennd landamæri og vistmorð.
Sýningarstjóri er Jonatan Habib Engqvist, alþjóðlegur, sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og höfundur, búsettur í Stokkhólmi. Jonatan er vel þekktur á Íslandi fyrir sýningaverkefni með íslenskum og erlendum listamönnum.
Sýningin stendur til og með 17. ágúst 2025. Fortíðin var aldrei, hún aðeins er, er styrkt af Myndlistarsjóði og Safnasjóði.
Listamaður: Larissa Sansour
Sýningarstjóri: Jonatan Habib Engqvist