Leir-andi
Ólöf Erla Bjarnadóttir
Sýningin er yfirgripsmikil og spannar 40 ára starfsferil listakonunnar. Ferill Ólafar Erlu hófst í byrjun níunda áratugarins en þá hafði hún lokið námi í keramiki við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Ferill hennar er mjög fjölbreyttur og lifandi og einkennist af leit og rannsóknum á möguleikum efnisins og mörkum þess. Hún hefur verið í samstarfi við hönnuði og myndlistarmenn þar sem leir kemur við sögu. Í samstarfi við vísindamenn og hönnuði hefur hún einnig stundað rannsóknir á íslenskum leir og jarðefnum og möguleikum þeirra til listsköpunar og framleiðslu.
Samhliða sýningunni er gefin út bók um feril listakonunnar en hana prýða fjölmargar ljósmyndir af verkum hennar og gefur bókin góða innsýn í tíðaranda, þróun og tækni sem er áhugavert fyrir lesandann að rýna í. Hönnun bókarinnar endurspeglar lifandi feril Ólafar Erlu, hún er handhæg og aðgengileg, textinn er bæði á íslensku og ensku.
Sýningin er tileinkuð foreldrum Ólafar Erlu, Rósu Guðmundsdóttur og Bjarna Braga Jónssyni en þau söfnuðu verkum hennar frá upphafi ferilsins og studdu hana heilshugar alla tíð.
Sýningarstjóri og ritstjóri er hönnuðurinn Brynhildur Pálsdóttir.
Listamaður: Ólöf Erla Bjarnadóttir
Sýningarstjóri: Brynhildur Pálsdóttir