Mismunandi upplausnir
Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Sirra Sigrún hefur við tilefni sýningarinnar skapað ný verk sem öll skoða á mismunandi hátt samspili skynjunar okkar og skilnings við staðreyndir, raunveruleika og aðferðir vísindanna til að miðla þeim með sjónrænum hætti. Verk hennar staðsetja okkur og setja okkur, mannfólkið á jarðkúlunni, í samhengi við himingeiminn og forsöguna. Þetta eru ekki ný sannindi í sjálfu sér, en hún færir þau nær okkur og gerir þau áþreifanleg. Sirra nýtir gögn og aðferðir mikilhæfra vísindamanna og hugsuða en eftir snúning í tilraunaglasi listamannsins birtist gjarnan annað og óvænt sjónarhorn.
Sirra Sigrún Sigurðardóttir (f. 1977) lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og MA í Art Practice frá School of Visual Arts í New York árið 2013. Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Sirra hefur meðal annars haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Hafnarborg og Listasafni Árnesinga og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim, þar á meðal í Chinese European Art Center í Xiamen í Kína, Amos Andersons Konstmuseum í Helsinki í Finnlandi og í Tate Modern og Frieze Projects í London á Englandi. Sirra er einn stofnenda Kling & Bang í Reykjavík (2003). Sirra hefur hlotið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Dungal, Leifs Eiríkssonar, Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og Guðmunduverðlaunin árið 2015. Sirra er dósent og fagstjóri við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
Listamaður: Sirra Sigrún Sigurðardóttir