Flóra vinnur að listsköpun og menningarstarfi með viðburðum, sérverkefnum, vinnustofum, sýningum og miðlun á verkum, hugmyndum og vörum eftir listamenn, hönnuði, bændur og aðra aðila í frumsköpun. Þar á meðal er Pastel ritröð. Starfsemin fer fram í hinu sögufræga húsi Sigurhæðir á Akureyri í gróðurvin kirkjustallana. Hér er nýjabrum á menningarsviði tengt saman við menningararfinn, nýtt og gamalt mætist. Árið 2024 eiga myndlistarmennirnir Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Ragnar Kjartansson verk í heildarsýningu Sigurhæða. Te- og kaffibar er á staðnum og fallegt að njóta stundar og útsýnis í gróskumiklu umhverfi í hringiðu miðbæjar Akureyrar og hverfa um leið heila öld aftur í tímann þegar Guðrún Runólfsdóttir og Matthías Jochumsson skáld héldu hér heimili.